Lína dómarans var ansi teygð

Guðjón Baldvinsson framherji Stjörnunnar sýnir tilþrif við mark Fylkismanna.
Guðjón Baldvinsson framherji Stjörnunnar sýnir tilþrif við mark Fylkismanna. mbl.is/Árni Sæberg

Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar, var ánægður eftir 2:1-sigur Garðbæinga gegn Fylki í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í kvöld. Hilmar Árni Halldórsson skoraði bæði mörk Stjörnunnar, á 88. og 90. mínútu leiksins.

„Þetta var erfitt í dag. Fylkismenn voru öflugir og spiluðu varnarleikinn mjög vel. Við fundum litlar sem engar glufur. Eins og þetta var sætt fyrir okkur þá hlýtur það að vera mjög svart fyrir þá að fá á sig tvö mörk í lokin,“ sagði Rúnar eftir leikinn í Árbænum í kvöld.

„Eins og oft áður þá er leikurinn ekki búinn fyrr en flautað er af. Við kláruðum þetta á seiglunni,“ bætti Rúnar við en hann kvaðst lítið vita hvort aukaspyrnan sem Stjarnan jafnaði leikinn úr hefði verið réttur dómur:

„Ég veit ekkert um það. Dómarinn átt kannski ekki sinn besta leik og línan hans var ansi teygð. Hann dæmdi á eitt og svo í næstu sókn var alveg eins brot og þá dæmdi hann ekki. Þeir geta verið fúlir yfir dómgæslunni eins og við.“

Rúnar sagðist ekki búast við því að Stjörnumenn bæti við sig leikmönnum á næstu dögum en glugginn til að næla í leikmenn er til 31. júlí. „Við sjáum bara hvernig það fer. Við erum með öflugan hóp og erum ekkert að hugsa um að styrkja okkur.“

Rúnar Páll Sigmundsson.
Rúnar Páll Sigmundsson. mbl.is/Eva Björk
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert