„Skulda strákunum tvær pítsuveislur“

Milos Milojevic, þjálfari Víkings.
Milos Milojevic, þjálfari Víkings. Eggert Jóhannesson

„Ég er mjög ánægður með þrjú stig. Ég er ánægður með vinnuframlag strákanna og varnarlega var frammistaðan mjög fín,“ sagði Milos Milojevic, þjálfari Víkings R., eftir 1:0-sigur á KR í Pepsi-deildinni í kvöld.

Vladimir Tufegdzic skoraði eina mark leiksins eftir hálftíma leik. Víkingar eru með sjö stig úr síðustu þremur leikjum en liðið er nú með 18 stig í 6. sæti deildarinnar.

„Við fengum nokkur færi en í dómgæslunni í fyrstu tæklingu átti aftasti maður að fjúka af velli en við þurftum að halda áfram að spila. Það var líka brot á Alex en maður þarf að detta til þess að fá víti, þá þarf maður að fá gult spjald fyrir dýfu. Þetta er erfitt en ég er ánægður með framlag liðsins og ég get ekki kvartað yfir því.

KR-ingar gátu ekki skorað. Þeir voru með fjóra framherja á einum tímapunkti. Ég ætla ekki að taka neitt af þeim, þetta er eitt af bestu liðum deildarinnar ef þú horfir á mannskapinn og einstaklingsgetu.

Strákarnir fá alltaf pítsu þegar þeir halda hreinu. Við héldum ekki hreinu í Krikanum en ég skulda núna strákunum tvær pítsuveislur og þeir vita af því,“ sagði hann ennfremur.

Víkingar missa Gary Martin til Noregs á morgun en hann skoðar aðstæður hjá Lilleström. Milos er þá að fá leikmann frá Slóveníu en sá getur spilað sem framliggjandi miðjumaður og á vængnum.

„Ég er nánast búinn að ganga frá einum kaupum. Hann er ekki framherji, þetta eru ekki kaup, við fáum alla leikmenn frítt og svo spila þeir fyrir smá pening. Við erum búnir að fá einn leikmann og hann spilar sem framliggjandi miðjumaður og getur einnig spilað á vængnum,“ sagði hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert