Leið feykilega vel inni á vellinum

„Ég er að sjálfsögðu ánægður með að hafa náð að skora tvö mörk og að við höfum náð að landa þessum sigri. Aðstæður hér í kvöld voru frábærar, blautur völlur, flóðljós, full stúka og alvöru nágrannaslagur. Mér leið vel inni á vellinum og fannst við eiga sigurinn skilinn,“ sagði Kristinn Freyr Sigurðsson í samtali við mbl.is, en hann skoraði bæði mörk Vals í 2:0 sigri liðsins gegn KR í 17. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í kvöld. 

Kristinn Freyr hefur nú skorað 12 mörk í deildinni, auk þess að hafa skorað fjögur mörk í bikarkeppninni þar sem Valur fór alla leið og tryggði sér bikarmeistaratitilinn. Valur hefur borið sigur úr býtum í þremur leikjum í röð í deildinni með markatölunni 13:0 og liðið leikur á als oddi. 

„Við höfum verið á góðu flugi undanfarið og það er mikið sjálfstraust í liðinu. Það mættust hérna í kvöld tvö góð fótboltalið og þetta var svolítið spurningin um hvort liðið myndi ná að skora fyrsta markið. Sem betur fer datt það okkar megin og við tryggðum okkur sanngjarnan sigur. Þetta var frábær liðssigur og enn og aftur höldum við hreinu sem gerir okkur auðvitað auðveldara fyrir að vinna,“ sagði Kristinn Freyr enn fremur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert