Ekki tapið í dag sem felldi okkur

Frá vinstri sitjandi: Sævar Freyr Þráinsson, varaformaður KFÍA, Helena Ólafsdóttir, …
Frá vinstri sitjandi: Sævar Freyr Þráinsson, varaformaður KFÍA, Helena Ólafsdóttir, Magnús Guðmundsson, formaður KFÍA. Fyrir aftan standa fráfarandi þjálfarar ÍA, Steindóra Steinsdóttir og Kristinn Guðbrandsson sem tóku við á miðju þessu tímabili. Ljósmynd/ÍA

Kristinn Guðbrandsson, annar af þjálfurum ÍA í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu, sagði að vissulega hefðu verið tækifæri til staðar í leik sinna stúlkna gegn Breiðabliki í dag en herslumuninn hefði vantað.

„Við lögðum þetta þannig upp, að liggja aftarlega og grípa þau tækifæri sem okkur buðust. Við fengum slatta af færum, en nýttum þau ekki nógu vel. Að sama skapi voru Blikarnir flottir í dag og sköpuðu sér líka mörg færi, sem þeir náðu að nýta sér betur en við,” sagði Kristinn í samtali við mbl.is, eftir leik.

Með tapinu í dag, er ljóst að ÍA er fallið úr Pepsi-deild kvenna. Skagastúlkur sitja á botni deildarinnar og eru fjórum stigum frá öruggu sæti þegar einungis ein umferð er eftir.

Kristinn var sammála því að leikurinn í dag hafi ekki verið leikurinn sem felldi ÍA úr deild þeirra bestu.

„Það voru leikir fyrr í sumar, þar sem við höfðum tækifæri á að sækja þau stig sem þarf, til þess að halda sér uppi. Það er kannski ekki raunhæft að ætlast til þess að sækja mörg stig gegn Breiðabliki, Stjörnunni og Val, en það eru þau þrjú lið sem við höfum mætt í undanförnum umferðum. Leikirnir gegn FH, Selfoss og Fylki sitja svolítið í okkur. Við fengum allt of lítið úr þeim leikjum,” sagði Kristinn.

Kristinn og Steindóra Steinsdóttir, sem tóku tímabundið við þjálfun ÍA á miðju tímabilinu, munu nú láta af störfum. Við starfi þeirra taka Helena Ólafsdóttir og Aníta Lísa Svansdóttir og segir Kristinn að þær muni taka við ágætis búi.

„Í liðinu í dag var þó nokkuð af ungum og efnilegum stelpum. Svo er spurning hvað verður með útlendingana. Þá er Ásta Vigdís Guðlaugsdóttir, markmaður ÍA, á láni frá Breiðabliki, þannig að það er spurning hvað verður með hana. Hún er það góð að hún verður að spila,” sagði Kristinn að lokum við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert