Stjarnan upp í 2. sæti

Igor Jugovic og Daníel Laxdal berjast um boltann í Grafarvoginum …
Igor Jugovic og Daníel Laxdal berjast um boltann í Grafarvoginum í dag. mbl.is/Golli

Fjölnir missti Stjörnuna og KR upp fyrir sig í næstsíðustu umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í dag þegar Stjarnan mætti í Grafarvoginn og vann afar torsóttan 1:0-sigur. Stjörnumenn eru komnir í 2. sæti deildarinnar fyrir lokaumferðina eftir þrjá sigurleiki í röð.

Fjölnismenn voru talsvert sterkari í fyrri hálfleiknum og sköpuðu sér nokkur færi sem þeim tókst ekki að nýta. Snemma í seinni hálfleik virtust þeir eiga heimtingu á vítaspyrnu þegar boltinn fór í hönd Heiðars Ægissonar innan teigs, en Þorvaldur Árnason dómari sá atvikið vel og var ekki sammála.

Rúnar Páll Sigmundsson skipti Baldri Sigurðssyni inná fljótlega í seinni hálfleik, fyrir Halldór Orra Björnsson, og betri bragur var á leik Stjörnunnar eftir það. Ævar Ingi Jóhannesson komst í dauðafæri á 64. mínútu og skömmu síðar skoraði Daníel Laxdal sigurmark leiksins, eftir hornspyrnu Hilmars Árna Halldórssonar. Boltinn virtist raunar stefna í markið úr hornspyrnu Hilmars en Daníel snerti hann á leiðinni.

Fjölnismenn lögðu allt í sölurnar til að jafna metin og átti Gunnar Már Guðmundsson meðal annars skot sem varið var í stöng og út. Stjarnan fagnaði hins vegar 1:0-sigri á meðan að Fjölnismenn gengu miður sín til búningsklefa.

Stjarnan mætir Víkingi Ó. í lokaumferðinni næsta laugardag en Fjölnir sækir Breiðablik heim. Fjölnir þarf að vinna þann leik og treysta á að KR eða Stjarnan geri jafntefli eða tapi. Stjarnan er með 36 stig, Breiðablik og KR 35, en Fjölnir 34 og bestu markatöluna.

Fjölnir 0:1 Stjarnan opna loka
90. mín. Leik lokið Stjarnan vinnur og er á leið upp í 2. sæti eins og staðan er núna! Fjölnismenn eru niðurbrotnir eftir frábæra frammistöðu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert