„Tímabilið vonbrigði“

Róbert Örn Óskarsson í leik með Víkingum.
Róbert Örn Óskarsson í leik með Víkingum. Eggert Jóhannesson

Róbert Örn Óskarsson var í essinu sínu er Víkingur Reykjavík sigraði FH 1:0 á Víkingsvelli í næstsíðustu umferð efstu deildar karla í knattspyrnu í dag. Hann segir tímabilið þó í heildina hafa verið vonbrigði.

Róbert samdi við Víking fyrir tímabilið, en hann kom einmitt frá Íslandsmeisturum FH. Hann hefur átt fínt sumar í Víkinni en vonaðist þó eftir betra gengi.

Hann stóð vaktina í markinu gegn FH-ingum í dag, hafði nóg að gera og varði oft á tíðum afar vel.

„Það er alltaf gaman að halda hreinu og ná í þrjú stig gegn Íslandsmeisturunum. Það var nóg að gera hjá okkur markmönnunum, opinn leikur og við stóðum fyrir okkar,“ sagði Róbert við fjölmiðla eftir leik.

„Við vorum með 21 stig í fyrra og erum með 29 stig núna. Þetta eru vonbrigði. Ég er metnaðarfullur en ég kom ekki í Víking til að gera ráð fyrir titli á fyrsta tímabili hérna. Það eru þó margir ljósir punktar eins og Óttar og Viktor. Það eru margir ungir leikmenn að koma upp og standa stig vel,“ sagði hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert