Föstudag kl. 16 frekar en sunnudag

Breiðablik fagnaði Íslandsmeistaratitli sínum á laugardegi í fyrra, þann 12. …
Breiðablik fagnaði Íslandsmeistaratitli sínum á laugardegi í fyrra, þann 12. september. Mótinu lýkur síðar í ár vegna sérstaks EM-hlés. mbl.is/Styrmir Kári

Úrslitin á Íslandsmóti kvenna í knattspyrnu ráðast kl. 16 á föstudaginn. Einhverjum kann að þykja það undarlegt að lokaumferðin fari fram á þessum tíma en mbl.is ræddi við fyrirliða liðanna sem berjast um Íslandsmeistaratitilinn sem eru báðir sáttir við ákvörðunina.

„Mér finnst þetta skrýtið, en ég skil að vegna birtuskilyrða þurfi þetta að vera svona,“ segir Ásgerður Stefanía Baldursdóttir, fyrirliði toppliðs Stjörnunnar, sem mætir FH í Garðabænum í lokaumferðinni og þarf sigur til að tryggja sér titilinn.

Leikir lokaumferðarinnar verða samkvæmt reglum allir að fara fram á nákvæmlega sama tíma. Fáir vellir eru með flóðlýsingu og því þurfa leikir á þessum árstíma að fara fram í síðasta lagi kl. 16. Lokaumferð Pepsi-deildar karla er á laugardag kl. 14 og segir Birkir Sveinsson, mótastjóri KSÍ, því ekki hægt að spila lokaumferð Pepsi-deildar kvenna á þeim degi. Ásgerður segir vissulega leitt að leikirnir hefjist áður en hefðbundnum vinnutíma lýkur, en það sé þó betra en að lokaumferðin sé á sunnudaginn:

„Auðvitað er þetta óheppilegt en það er stemning í því upp á lokahófin hjá félögunum að klára báðar deildirnar fyrir laugardagskvöldið. Ég hef oft skammast yfir því við KSÍ að hafa okkur á sunnudegi og strákana á laugardegi, svo ég myndi kjósa þetta frekar. Fólk verður bara að drífa sig fyrr úr vinnunni og mæta á leikina. Mér finnst þetta ekki eins hræðilegt og sumir virðast telja,“ sagði Ásgerður.

Enginn verið að tuða yfir þessu

Rakel Hönnudóttir er fyrirliði Breiðabliks sem sækir Val heim á Hlíðarenda og þarf á sigri að halda auk þess að treysta á að Stjarnan vinni ekki FH. Hún tekur í sama streng og Ásgerður varðandi tímasetningu lokaumferðarinnar:

„Það væri auðvitað hentugra að allir væru búnir í vinnunni og svona, en þetta er ekkert stórmál. Það hefur alla vega enginn verið að tuða yfir þessu. Þetta skiptir ekki öllu máli,“ sagði Rakel.

Edda Garðarsdóttir, þjálfari KR, virðist vera ein úr röðum þjálfara og leikmanna Pepsi-deildarliðanna sem opinberlega hefur lýst yfir óánægju með það að lokaumferðin sé á þessum tíma. KR mætir ÍA á Akranesi og þarf að minnsta kosti jafntefli til að halda sér í deildinni:

„Það er ekkert annað í stöðunni en að gefa allt í þann leik, og það á föstudegi klukkan fjögur. Takk fyrir það KSÍ – hvað er að frétta af því?“ sagði Edda við mbl.is eftir síðustu umferð.

Engar kvartanir inn á borð KSÍ

Birkir Sveinsson mótastjóri segir það hafa verið á áætlun síðan í janúar að lokaumferðin færi fram föstudaginn 30. september:

„Ég hef ekki fengið neinar kvartanir inn á mitt borð. Ég hef séð ein ummæli í fjölmiðlum um þetta, en ekkert annað. Þetta orsakast auðvitað af birtuskilyrðum, og því að við getum ekki endað tvær deildir á sama tíma,“ sagði Birkir.

„Við birtum leikjadagskrána í janúar og þá lá fyrir að mótinu lyki á föstudegi. Við lögðum þessa tillögu fram og það komu ekki óskir um að leikirnir yrðu færðir til,“ bætti Birkir við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert