Margt gengið á í sumar

Ruth Þórðar Þórðardóttir, fyrirliði Fylkis, í baráttunni í leik liðsins …
Ruth Þórðar Þórðardóttir, fyrirliði Fylkis, í baráttunni í leik liðsins gegn Stjörnunni fyrr í sumar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Tilfinningin er svakalega góð eftir að hafa tryggt sæti okkar í efstu deild. Þetta hafa verið stressandi vikur undanfarið. Við komum okkur í erfiða stöðu, en við gerðum nóg í leiknum í dag og þetta er mjög þægileg tilfinning,“ sagði Ruth Þórðar Þórðardóttir, fyrirliði Fylkis, eftir markalaust jafntefli liðsins gegn Selfossi sem nægði Fylki til þess að tryggja áframhaldandi veru í efstu deild. 

Mikið gekk á í leik ÍA og KR á Akranesi, en sá leikur hafði mikil áhrif á þróun mála í fallbaráttunni. Ruth segir að leikmenn Fylkis hafi lítið pælt í þeim leik, enda haft um nóg annað að hugsa á meðan á leik þeirra stóð. 

„Ég vissi það ekki fyrr en eftir leikinn hvernig fór uppi á Akranesi. Ég vissi að staðan var 2:0 fyrir ÍA í hálfleik, en við einbeittum okkur bara að klára okkar leik og tryggja okkur það stig sem myndi duga til þess að halda sæti okkar,“ sagði Ruth um vitneskju sína um gang mála í fallbaráttunni. 

Þurfum að styrkja liðið fyrir næsta sumar

Tímabilið hefur verið langt og strangt hjá Fylki og það mátti greina það á Ruth að henni var létt eftir að ljóst var að Fylki myndi leika áfram í efstu deild á næstu leiktíð. 

„Ég er ekki sátt við árangur liðsins á tímabilinu. Það verður samt að hafa í huga að við misstum marga leikmenn bæði í meiðsli og af öðrum ástæðum. Við vorum brothættar seinni hluta sumars. Við ætluðum okkur stærri hluti, en við vorum alla vega ánægðar með að bjarga því að við verðum áfram í efstu deild,“ sagði Ruth um tímabilið í heild sinni. 

„Það vinnur ofboðslega gott fólk í kringum liðið og forráðamenn liðsins vilja allt fyrir okkur gera. Við erum með fámennan hóp og margar ungar og efnilegar stelpur. Það verður hins vegar að styrkja liðið ef við ætlum okkur að hífa okkur í efra hlutann á næstu leiktíð og ég er viss um að við gerum það,“ sagði Ruth um framhaldið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert