„Þetta er bara ólýsanleg tilfinning“

Katrín Ásbjörnsdóttir með boltann gegn Þór/KA, sínu gamla liði.
Katrín Ásbjörnsdóttir með boltann gegn Þór/KA, sínu gamla liði. mbl.is/Eggert

„Þetta er frábært og einmitt eins og við lögðum upp með. Ég er stolt af öllum hvað við lögðum okkur fram og þetta er bara frábær endir,“ sagði Katrín Ásbjörnsdóttir, framherji Stjörnunnar, í samtali við mbl.is eftir að liðið varð Íslandsmeistari með sigri á FH, 4:0, í lokaumferð Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu.

Sjá frétt mbl.is: Stjarn­an Íslands­meist­ari í fjórða sinn

Þetta er annar Íslandsmeistaratitill Katrínar, sem einnig varð meistari sumarið 2012 þegar hún lék með Þór/KA. Getur hún eitthvað borið þá saman?

„Það er svolítið erfitt að bera þá saman. Þetta er allt öðruvísi hópur og bara besta liðsheild sem ég hef upplifað er hér hjá Stjörnunni. Við höfum orðið fyrir miklum áföllum í sumar en það kemur alltaf maður í manns stað sem sýnir karakterinn í hópnum. Þetta er bara ólýsanleg tilfinning,“ sagði Katrín.

Deildin í sumar hefur verið með þeim jafnari sem sést hefur og Katrín segir það sérstaklega skemmtilegt að hafa tryggt titilinn í lokaumferðinni.

„Þetta er það sem er svo skemmtilegt, við hefðum ekki viljað hafa hlutina öðruvísi. Þetta er nákvæmlega eins og við vildum, að klára þetta hér á heimavelli í lokaumferðinni. Það getur ekki verið sætara,“ sagði Katrín Ásbjörnsdóttir í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert