„Ekki nógu góðir fyrir framan markið“

Arnar Grétarsson.
Arnar Grétarsson. mbl.is/Eva Björk

„Úrslit dagsins eru vonbrigði. Það gefur auga leið. Við ætluðum að sækja sigur, ég held að allir hafi séð það. Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik. Hvorugt liðið var að skapa sér mikið. Við réðum ferðinni í fyrri hálfleik en svo var bara eitt lið á vellinum í seinni hálfleik. Ég held við höfum fengið þrjú algjör dauðafæri. Það er sama sagan og í sumar, við náum ekki að klára færin,” sagði Arnar Grétarsson þjálfari Breiðabliks eftir tap liðsins fyrir Fjölni 0-3 á heimavelli í dag.

Með tapinu missir Breiðablik af Evrópusætinu. Hefði liðið þurft að sigra leikinn til að hirða það sæti af KR-ingum sem unnu leik sinn gegn Fylki í dag.

„Það er stutt á milli í þessu. Við hefðum svo kannski átt að fá vítaspyrnu þegar boltinn virtist fara í höndina á Tobiasi. En dómarinn dæmdi ekki og þá er ekki víti. Svo skora þeir á 84. mínútu og þá er á brattann að sækja fyrir okkur og mér fannst við missa svolítið hausinn þá. En hvort maður tapi 1-0 eða 3-0 það skiptir litlu máli. Við ætluðum okkur Evrópusæti en þetta er niðurstaðan.”

„Liðin voru ansi varkár í fyrri hálfleik og því var hálfleikurinn eins og hann var. En við vissum hver staðan var í hálfleik og að við þurftum að sækja mark. Þess vegna er það blóðugt þegar þetta endar síðan svona. Bara drullusvekkjandi. Það eru allir grænir fúlir næstu daga,” segir Arnar en með tapinu færðist Breiðablik niður í 6. sætið.

„Mér finnst spilamennskan í sumar heilt yfir hafa verið mjög góð. En við náum bara ekki að nýta færin. Hefðum við nýtt okkur færin hefðum við unnið. Og það má segja að við séum ekki nógu góðir fyrir framan markið og það verðum við að laga fyrir næsta ár,” segir Arnar. Hvað framtíð hans hjá Breiðablik varðar, segir Arnar að það verði bara að koma í ljós. „Ég á ár eftir af samningi og það verður bara að koma í ljós.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert