KR náði Evrópusæti og felldi Fylki

KR sendi Fylkir niður um deild þegar liðin mættust í lokaumferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í dag. KR vann öruggan 3:0-sigur og tryggði sér um leið þriðja sætið, sem gefur þátttökurétt í Evrópukeppni, en sautján ára veru Fylkis á meðal þeirra bestu er lokið.

Staða Fylkis var svört fyrir leikinn og ekki batnaði hún strax í upphafi leiks því á sjöttu mínútu komst KR yfir. Kennie Chopart komst þá upp að endamörkum eftir laglega skyndisókn, renndi boltanum fyrir markið þar sem Denis Fazlagic var einn og óvaldaður á fjærstöng og skoraði. Staðan 1:0 fyrir KR.

Pressa KR hélt áfram eftir markið á meðan lítið var að frétta hjá Fylki. Vonleysið hjá þeim virtist algjört, á meðan KR hélt áfram baráttu sinni að Evrópusæti sem ekki væri tryggt þrátt fyrir sigur heldur þurfti að treysta á önnur úrslit. Sókn þeirra sem var linnulaus bar þó ekki ávöxt fyrr en á 42. mínútu og var það mark af dýrari gerðinni.

Morten Beck geystist þá fram hægri vænginn, sendi til baka á Denis sem átti hárnákvæma sendingu inn á teiginn. Þar kom Morten Beck Andersen askvaðandi og stýrði boltanum í netið með brjóstkassanum. Laglega gert og staðan 2:0 fyrir KR í hálfleik.

Tvöföld gleði KR-inga

Fylkismenn hresstust nokkuð eftir hlé, en þeir áttu þó við ramman reip að draga og gekk lítið þegar komið var upp að vítateig KR-inga. Tonci Radovnikovic átti þeirra hættulegasta færi þegar skalli hans eftir hornspyrnu var hreinsaður burt á marklínu, en pressa þeirra bar annars ekki ávöxt.

Heimamenn fengu sömuleiðis sín færi, en þurftu að bíða fram á 80. mínútu eftir þriðja markinu. Þeir geystust þá fram í sókn eftir aukaspyrnu Fylkismanna, Morten Beck kom boltanum á Óskar Örn Hauksson sem skaut að marki og með viðkomu í varnarmanni endaði boltinn í horninu. Staðan 3:0 og staða Fylkis ráðin.

Í þann sama mund bárust fregnir af því að Fjölnir væri að vinna Breiðablik, sem hefði getað komist upp fyrir KR með sigri. Það var því tvöfaldur fagnaður KR-inga í stúkunni við þriðja markið. Ekki minnkaði gleðin þegar flautað var til leiksloka, lokatölur 3:0 og þriðja sætið, Evrópusæti, tryggt hjá KR með 38 stig. Fylkir fellur hins vegar með 19 stig í ellefta sæti deildarinnar.

Ótrúlegur viðsnúningur undir stjórn Willums

Viðsnúningur KR-liðsins var gríðarlegur eftir að Willum Þór Þórsson tók við í lok júnímánaðar. Liðið var þá með 9 stig en undir stjórn Willums fékk liðið 29 stig af 39 mögulegum og tryggði sér Evrópusæti. Hreint magnaður viðsnúningur.

Fyrir leikinn var ljóst að Fylki dugði ekkert annað en sigur til þess að eiga möguleika á að halda sæti sínu í deildinni, og þurfti auk þess að treysta á það að Víkingur Ólafsvík myndi ekki vinna Stjörnuna. Það gekk eftir, en Fylkir náði ekki að gera sitt og er veru þeirra í efstu deild, sem hefur verið samfelld frá árinu 2000, nú lokið.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

KR 3:0 Fylkir opna loka
90. mín. José Sito Seoane (Fylkir) á skot sem er varið Fínt skot en Stefán Logi vel á verði. Líklega síðasta skot Fylkismanna í efstu deild að sinni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert