Fyrsti landsleikur Berglindar

Berglind Hrund Jónasdóttir.
Berglind Hrund Jónasdóttir. mbl.is/Styrmir Kári

Berglind Hrund Jónasdóttir, markvörður Íslandsmeistara Stjörnunnar, leikur á morgun fyrsta A-landsleik sinn í knattspyrnu þegar Ísland leikur við Úsbekistan í lokaumferð alþjóðlega mótsins í Yongchuan í Kína.

Freyr Alexandersson landsliðsþjálfari tilkynnti byrjunarliðið í kvöld og hann gerir sjö breytingar á því eftir 0:1 ósigurinn gegn Dönum í gær. Freyr gerði líka sjö breytingar fyrir þann leik, eftir jafnteflið gegn Kína, 2:2, í fyrstu umferðinni.

Berglind Björg Þorvaldsdóttir, Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, Fanndís Friðriksdóttir, Sif Atladóttir, Dóra María Lárusdóttir og Rakel Hönnudóttir koma einnig inní byrjunarliðið.

Athygli vekur að Hólmfríður Magnúsdóttir og Rakel Hönnudóttir verða í bakvarðastöðunum, en byrjunarliðið er svona skipað:

Berglind Hrund Jónasdóttir (M)

Hólmfríður Magnúsdóttir - Anna Björk Kristjánsdóttir - Sif Atladóttir - Rakel Hönnudóttir

Fanndís Friðriksdóttir - Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir - Dóra María Lárusdóttir - Dagný Brynjarsdóttir (F) - Svava Rós Guðmundsdóttir

Berglind Björg Þorvaldsdóttir.

Leikurinn hefst klukkan 8 í fyrramálið að íslenskum tíma. Leikið er í borginn Yongchuan í Chongqing-héraði, eins og í fyrstu tveimur leikjunum, 

Úsbekistan er í 42. sæti á heimslista FIFA, en Ísland er í 16. sæti. Úsbekar hafa tapað báðum sínum leikjum á mótinu, þeir töpuðu naumlega fyrir Dönum, 1:2, á marki í blálokin en síðan 1:4 gegn Kínverjum.

Ísland og Úsbekistan hafa aldrei áður mæst í knattspyrnulandsleik í neinum aldursflokki. Úsbekistan er 32 milljóna þjóð í vesturhluta Asíu, eitt af fyrrverandi lýðveldum Sovétríkjanna, og á landamæri að Kasakstan í norður og vestur en að Afganistan í suður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert