Öflugur sigur á Hvít-Rússum

Sveindís Jane Jónsdóttir skoraði tvö mörk fyrir Ísland í dag.
Sveindís Jane Jónsdóttir skoraði tvö mörk fyrir Ísland í dag. Heimasíðu Keflavíkur

Íslenska kvennalandsliðið skipað leikmönnum 17 ára og yngri sigraði Hvíta-Rússland 4:0 í fyrsta leik í undankeppni Evrópumótsins í knattspyrnu í dag en allir leikirnir í riðlinum fara fram á Írlandi.

Það gekk allt upp í fyrsta leik hjá liðinu en það er með Hvíta-Rússlandi, Færeyjum og Írlandi í riðli.

Sveindís Jane Jónsdóttir, sem lék frábærlega með Keflavík í 1. deildinni í sumar, gerði tvö mörk fyrir Ísland á meðan þær Hlín Eiríksdóttir og Karólína Lea Vilhjálmsdóttir komust einnig á blað.

Ísland fór með því þægilegan 4:0 sigur af hólmi en næsti leikur liðsins er gegn Færeyjum á föstudag. Tvö efstu liðin fara áfram í svokallaðan milliriðil og þá fara tvö lið með besta árangurinn í þriðja sæti áfram einnig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert