Björn í formannsslaginn hjá KSÍ?

Björn Einarsson hefur verið framkvæmdastjóri TVG Zimsen síðasta áratuginn.
Björn Einarsson hefur verið framkvæmdastjóri TVG Zimsen síðasta áratuginn. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

Björn Einarsson, formaður Víkings, liggur nú undir feldi og íhugar að bjóða sig fram gegn Geir Þorsteinssyni sem formaður Knattspyrnusambands Íslands.

Björn staðfestir þetta í samtali við Vísi.is í dag og segir ljóst að ýmsir vilji sjá breytingar á stjórn KSÍ.

„Ímynd þessa glæsilega sambands þarf að vera önnur en hún er núna,“ segir Björn meðal annars. Hann hefur þó ekki tekið endanlega ákvörðun um framboð.

Áður hefur komið fram að Guðni Bergsson, fyrrverandi landsliðs- og atvinnumaður, íhugi að gefa kost á sér til formanns. Hann hefur þó ekki frekar en Björn tekið endanlega ákvörðun um slíkt.

Björn hefur verið formaður Víkings frá árinu 2013 en var áður formaður knattspyrnudeildar félagsins í sjö ár. Hann hefur verið framkvæmdastjóri TVG Zimsen frá árinu 2006. Björn lék á sínum tíma með bæði Víkingi og Fylki í efstu deild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert