Hallbera frá Blikum til Svíþjóðar

Hallbera Guðný Gísladóttir.
Hallbera Guðný Gísladóttir. mbl.is/Eggert

Knattspyrnudeild Breiðabliks og Djurgården í Svíþjóð hafa komist að samkomulagi um vistaskipti Hallberu Guðnýjar Gísladóttur til sænska félagsins. Þetta kemur fram á blikar.is.

Hallbera, sem er þrítug, hefur leikið 57 leiki með Breiðabliki og skorað í þeim leikjum 2 mörk. Hún hefur einnig leikið með ÍA og Val hér á landi, auk þess sem hún er fastamaður í íslenska kvennalandsliðinu þar sem hún á að baki 76 landsleiki.

Hallbera hefur áður leikið í Svíþjóð, þá með Piteå, og hefur einnig reynt fyrir sér á Ítalíu með liði Torres. Hún mun nú leika með Guðbjörgu Gunnarsdóttur, samherja sínum í landsliðinu, með liði Djurgården sem hafnaði í sjötta sæti sænsku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili.

Ljóst er að þetta er mikill missir fyrir bikarmeistara Breiðabliks, en Hallbera var valin besti leikmaður liðsins á síðasta tímabili. Hún varð bikarmeistari í ár og Íslandsmeistari í fyrra með liðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert