„Vil ekki taka neina áhættu“

Kári Árnason.
Kári Árnason. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Það kom í ljós sprunga í rifbeininu svo ég hef þurft að taka því rólega en ég er allur að koma til,“ sagði landsliðsmiðvörðurinn Kári Árnason við mbl.is í dag en hann hefur verið frá keppni í síðustu leikjum með kýpverska liðinu Omonia Nicosia sem hann gekk til liðs við á dögunum.

„Ég geri mér vonir um að geta byrjað að æfa með liðinu undir lok næstu viku. Ég vil ekki taka neina áhættu með því að byrja of fljótt. Ég hef verið að æfa einn síðustu daga en fyrstu vikuna eftir þetta högg sem ég fékk gat ég lítið gert og hafði mikla verki,“ sagði Kári við mbl.is.

Það dró heldur betur til tíðinda hjá Kára og félögum í dag en eins og fram kom á mbl.is fyrr í dag var þjálfara liðsins vikið frá störfum.

„Okkur var tilkynnt þetta í morgun og þjálfari U21 árs liðsins tekur við af honum, alla vega til að byrja með,“ sagði Kári en allt sauð upp úr hjá stuðningsmönnum liðsins í bikarleik á móti Apollon í gærkvöld og varð að flauta leikinn af þegar skammt var til leiksloka.

„Ég var á leiknum og stuðningsmennirnir voru orðnir ansi heitir. Þeir hentu blysum inn á völlinn og reyndu að komast inn á völlinn með því að reyna að brjóta einhver hlið,“ sagði Kári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert