„Finnst Freyr vera á hálum ís“

Sigurður Ragnar Eyjólfsson
Sigurður Ragnar Eyjólfsson Ljósmynd/Ståle Linblad

Sigurður Ragnar Eyjólfsson, fyrrverandi landsliðsþjálfari kvenna, sem þjálfar nú atvinnumannalið Jiangsu Suning í Kína, gagnrýnir Frey Alexandersson landsliðsþjálfara kvenna í knattspyrnu í viðtali við Fréttatímann í dag.

Sigurður Ragnar segir þróunina á kínverskri knattspyrnu vera afar hraða og á góðri leið og segir aðstæður til knattspyrnuiðkunar fyrir bæði kyn varla gerast betri og setur spurningarmerki við þá ákvörðun Freys að láta samninga við kínversk félög hafa áhrif á stöðu íslenskra kvenna í landsliðinu.

„Æfingaaðstaðan er til fyrirmyndar með tíu æfingavöllum, gervigrasvelli, flóðlýstum leikvangi sem tekur mörg þúsund manns í sæti, stóru íþróttahúsi með lyftingatækjum, sundlaug og mötuneyti þar sem allir borða frítt þrjár máltíðir á dag. Þannig geta leikmenn verið á fullum launum og einbeitt sér að fótbolta allan ársins hring.“ segir Sigurður Ragnar við Fréttatímann.

Sigurður Ragnar reyndi að fá tvær íslenskar landsliðskonur til liðs við sig eins og fram kom í Morgunblaðinu fyrir skemmstu, þær Dagnýju Brynjarsdóttur og Hallberu Guðnýju Gísladóttur, en Freyr Alexandersson greindi síðar frá því að samningar við kínversk félög myndu hafa áhrif á stöðu íslenskra leikmanna í landsliðinu.

„Mér finnst fordómar ríkja á Íslandi gagnvart kínverskri knattspyrnu. Þeir skína í gegn í viðtölum til dæmis við Frey Alexandersson landsliðsþjálfara, þar sem hann talar niður styrkleika kínversku deildarinnar og segir hana ekkert sérstaka,” segir Sigurður Ragnar.

Freyr Alexandersson
Freyr Alexandersson mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mér finnst Freyr vera á hálum ís með því að segja að ef leikmenn spili í Kína, þá hafi það áhrif á val hans í landsliðið. Ég spyr á móti hvert vandamálið sé við að spila í kínversku deildinni? Meirihluti landsliðskvenna spilar í áhugamannadeild á Íslandi þar sem keppnistímabilið er styttra, liðin eru ekki með jafn góða erlenda leikmenn og leikmenn geta ekki einbeitt sér að því eingöngu að spila knattspyrnu. Er vandamálið hvað Kína er langt í burtu? Ég ræddi það við Frey og landsliðskonur sem ég hafði áhuga á að fá hingað, að þær myndu ekki missa af undirbúningi né leikjum á EM. Hvers vegna vill hann þá ekki að þær spili í Kína? Eru það fordómar gagnvart kínverskri knattspyrnu? Mega konur ekki þéna vel á sinni knattspyrnuiðkun, eins og karlar?,“ spyr Sigurður Ragnar.

Leikmenn svara fyrir sig

Hallbera Guðný, sem leikur með Djurgården í Svíþjóð, var fljót til á Twitter og lagði sitt af mörkum í umræðuna.

Í samtali við Morgunblaðið þann 17. febrúar sagðist Dagný, sem leikur með Portland í Bandaríkjunum hafa fengið símtal frá Sigurði en sagst ekki hafa áhuga. Dagný tjáði sig einnig á Twitter fyrir skemmstu.

Dagný Brynjarsdóttir
Dagný Brynjarsdóttir mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert