Kósóvó kallar á markaskorara

Valon Berisha fagnar fyrsta marki Kósóvó í mótsleik í september …
Valon Berisha fagnar fyrsta marki Kósóvó í mótsleik í september síðastliðnum. AFP

Kósóvó, næsti andstæðingur Íslands í undankeppni HM karla í knattspyrnu, er nú í fyrsta sinn með í undankeppni stórmóts. Landið fékk keppnisleyfi frá FIFA í fyrra og sérstakt leyfi til að tefla fram leikmönnum sem spilað hafa fyrir önnur landslið, en vanalega mega knattspyrnumenn aðeins spila fyrir eitt A-landslið á sínum ferli.

Kósóvóar hafa nú kallað í hinn 31 árs gamla markahrók Besart Berisha fyrir leikinn við Ísland 24. mars, samkvæmt frétt ESPN. Berisha er leikmaður Melbourne Victory í Ástralíu en hann hefur skorað 97 mörk í áströlsku A-deildinni frá árinu 2011 og hyggst rjúfa 100 marka múrinn fyrir Íslandsleikinn.

„Það lítur út fyrir að ég sé að fara að spila minn fyrsta leik fyrir Kósóvó. Þetta er mjög spennandi og vonandi mun ég eiga góðan leik,“ sagði Berisha.

Hann er fæddur í Kósóvó en hefur áður leikið 17 landsleiki fyrir Albaníu, síðast árið 2009, en hann hætti að gefa kost á sér þegar hann fluttist til Ástralíu.

Berisha hefur áður verið á mála hjá Hamburger, Arminia Bielefeld og TB Berlín í Þýskalandi og Burnley á Englandi, en þaðan var hann lánaður til Rosenborg í Noregi 2008 og Horsens í Danmörku 2009. Hann var áður hjá Horsens 2005-2006 og þar áður hjá danska liðinu AaB.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert