Lyon komst upp fyrir KR

KR-ingar og Glenavon eigast við á KR-vellinum. Þar vann KR …
KR-ingar og Glenavon eigast við á KR-vellinum. Þar vann KR 2:1. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Franska knattspyrnuliðinu Lyon tókst í gærkvöld að koma í veg fyrir að KR-ingar væru eitt þeirra liða sem hefðu skorað flest mörk í einum leik í Evrópudeild UEFA keppnistímabilið 2016-2017.

KR-ingar voru heldur betur á skotskónum í fyrstu umferð keppninnar þegar þeir burstuðu Glenavon, 6:0, í seinni leik liðanna á Norður-Írlandi, eftir að hafa unnið nauman 2:1 sigur í fyrri leiknum á KR-vellinum.

Sama kvöld skoraði danska liðið Brøndby sex mörk í keppninni og aftur kom íslenskt lið við sögu því Brøndby lék Valsmenn grátt, 6:0, í seinni leik liðanna í sömu umferð í Kaupmannahöfn.

Anderlecht frá Belgíu varð síðan þriðja liðið til að skora sex mörk með því að sigra Mainz frá Þýskalandi, 6:1, í riðlakeppni Evrópudeildarinnar um haustið.

Í gærkvöld lauk 32ja liða úrslitum keppninnar og allt benti til þess að KR, Brøndby og Anderlecht myndu deila mesta markaskori í leik í Evrópudeildinni þetta tímabilið.

En Frakkarnir í Lyon komu í veg fyrir það. Þeir gjörsigruðu AZ Alkmaar frá Hollandi, 7:1, í síðari viðureign liðanna í 32ja liða úrslitunum og unnu samanlagt með ótrúlegum tölum miðað við hve langt er komið í keppninni, 11:2.

KR-ingar eiga eftir sem áður Íslandsmetið í Evrópukeppnin því þeir eru eina íslenska félagsliðið sem hefur náð að skora sex mörk í Evrópuleik í karlaflokki. KR-ingar hafa einnig skorað fimm mörk í Evrópuleik og það hafa líka Skagamenn og Þórsarar frá Akureyri afrekað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert