Hæpið að hér verði HM

Hæpið er að kvennalandsliðið eigi eftir að leika á HM …
Hæpið er að kvennalandsliðið eigi eftir að leika á HM í heimabyggð. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Knattspyrnusamband Íslands mun taka þátt í því ásamt öðrum samböndum Norðurlanda að sækja um að halda heimsmeistaramót á næsta áratug. Samböndin horfa þar til heimsmeistaramóts kvenna 2023 eða 2027 og heimsmeistaramóts karla 20 ára og yngri sem fram fer annað hvert ár.

Guðni Bergsson, nýr formaður KSÍ, og Geir Þorsteinsson, forveri Guðna í starfi, sátu fund knattspyrnusambanda Norðurlandanna í Kaupmannahöfn í gærmorgun þar sem farið var yfir þessi mál. Starfshópur hefur unnið að því síðustu misseri að hægt verði að sækja um þessi mót og var tillaga hópsins um að því starfi yrði haldið áfram samþykkt. Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, situr í starfshópnum fyrir hönd KSÍ. Hún segir ólíklegt að leikir á HM færu fram á Íslandi, ef Norðurlöndin fengju slíkt stórmót. Laugardalsvöll þyrfti að betrumbæta fljótt til að svo gæti orðið.

„Það er ólíklegt að við eða Færeyjar myndum vera með leiki eins og staðan er núna. Við myndum hins vegar koma að mótshaldinu á annan hátt, mögulega með því að vera til dæmis með riðladráttinn hér, undirbúningsfundi, ráðstefnur í tengslum við mótið og slíkt. Við myndum taka þátt í mótshaldinu, án þess þó að leggja til völl þar sem við höfum ekki völl til að leggja til í dag. Með nýjum Laugardalsvelli myndi opnast tækifæri til að spila hér leik eða heilan riðil, sem yrði auðvitað frábært tækifæri,“ sagði Klara. Ekki er ljóst hvenær formlega verður sótt um mótshald vegna mótanna sem nefnd voru hér að ofan.

Áður höfðu verið uppi hugmyndir um að Norðurlöndin sæktust eftir því að halda EM karla árið 2024 eða 2028. Klara segir þá frekar horft til ársins 2028, en afar ólíklegt sé að eftir þessu verði sóst þar sem fleiri stóra leikvanga þurfi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert