Strákarnir töpuðu í vítakeppni

Íslenska U17 ára landsliðið sem nú er í Skotlandi.
Íslenska U17 ára landsliðið sem nú er í Skotlandi. Ljósmynd/KSÍ

Íslenska U17 ára landslið karla í knattspyrnu gerði jafntefli við Austurríki, 2:2, í fyrsta leik sínum á undirbúningsmóti UEFA sem fram fer í Skotlandi. Liðið tapaði í vítakeppni en fær engu að síður eitt stig.

Austurríki komst yfir á 20. mínútu eftir að íslensku strákarnir höfðu byrjað leikinn af krafti. Á 38. mínútu jafnaði hins vegar Karl Friðleifur Gunnarsson metin fyrir Ísland, en aðeins mínútu síðar komst Austurríki yfir á ný og staðan var 2:1 í hálfleik.

Á 56. mínútu jafnaði Ísland öðru sinni í leiknum, en þar var að verki Atli Barkarson. Ekki urðu mörkin fleiri, niðurstaðan því 2:2 jafntefli og þá var gripið beint til vítaspyrnukeppni. Þar hafði Austurríki betur, en fyrirkomulagið er þannig að Austurríki fær þá tvö stig en Ísland eitt fyrir jafnteflið.

Næsti leikur er á miðvikudaginn þegar liðið mætir Skotlandi, en lokaleikurinn er gegn Króatíu á föstudaginn.

Byrjunarliðið gegn Austurríki í dag:

Markmaður: Sigurjón Daði Harðarson.
Varnarmenn: Helgi Jónsson, Leó Ernir Reynisson, Finnur Tómas Pálmason, Egill Darri Þorvaldsson.
Miðjumenn: Sölvi Snær Fodilsson, Vuk Óskar Dimitrijevic, Atli Barkarson, Karl Friðleifur Gunnarsson.
Sóknarmenn: Andri Lucas Guðjohnsen, Stefán Sigurðarson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert