„Ég er mjög glaður“

Rúrik Gíslason
Rúrik Gíslason mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rúrik Gíslason er aftur kominn í landsliðshópinn í knattspyrnu eftir nokkra fjarveru. Raunar var Rúrik síðast í hópnum haustið 2015 og því er hálft annað ár liðið en fram að þessu hefur Rúrik spilað 37 A-landsleiki.

„Ég er mjög glaður yfir því að vera kominn aftur inn í hópinn. Það verður bara að segjast,“ sagði Rúrik sem er heill heilsu þótt hann hafi orðið fyrir smávægilegum meiðslum í byrjunar mánaðarins.

„Ég fór út af fyrir tveimur vikum vegna tognunar í náranum. Sem betur fer reyndist tognunin vera lítil. Ég er því heill heilsu og ekkert vesen á mér. Ég myndi segja að ég væri í góðu standi.“

Rúrik er nokkuð fjölhæfur leikmaður og hefur í gegnum árin spilað á kantinum með landsliðinu en einnig í fremstu víglínu eða sem sóknartengiliður. Um þessar mundir spilar hann í sókninni hjá félagsliði sínu Nürnberg í Þýskalandi en segist einfaldlega spila þær stöður sem þjálfararnir óska eftir.

„Í síðustu leikjum í Þýskalandi hef ég spilað einn frammi og mér líður bara mjög vel með það. Ég spila bara þar sem mér er sagt að spila. Sumir halda því fram að ég sé framherji og aðrir halda því fram að ég sé bakvörður. Ég held að það sé bara ágætt að geta spilað fleiri en eina stöðu. Leyfðu mér bara að spila og ég skal reyna að klára dæmið mjög vel,“ útskýrði Rúrik.

Sjá allt viðtalið við Rúrik í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert