Vel tekið á móti öllum í landsliðinu

Björn Bergmann Sigurðarson í leiknum gegn Tyrkjum síðasta haust.
Björn Bergmann Sigurðarson í leiknum gegn Tyrkjum síðasta haust. mbl.is/Golli

Björn Bergmann Sigurðarson segist vera afskaplega ánægður með að landsliðsverkefni séu aftur komin á dagskrá hjá honum en Björn var kallaður inn í landsliðið síðasta haust eftir nokkurra ára hlé. 

„Ég var mjög ánægður að fá tækifæri í haust. Eins og fram kom ræddi ég mikið við Heimi og þetta var það rétta í stöðunni. Svo var þetta bara ógeðslega gaman og frábært að vera í landsliðinu. Strákarnir eru frábærir og hér vill maður vera. Það er ekki erfitt að koma inn í landsliðshópinn. Allir vita hvernig það er að koma nýr inn í hópinn og vel er tekið á móti öllum,“ sagði Björn í samtali við mbl.is á landsliðsæfingu í gær.  

Björn, sem leikur með Molde í Noregi, var í byrjunarliðinu gegn Finnlandi og kom inn á sem varamaður gegn Tyrklandi í undankeppninni. Forföll eru í framlínunni hjá Íslandi að þessu sinni. Kolbeinn Sigþórsson er ekki leikfær frekar en í haust og nú er Alfreð Finnbogason einnig meiddur en hann skoraði í fyrstu þremur leikjunum í þessari undankeppni. Fyrir utan þá tvo vantar einnig Birki Bjarnason og Jóhann Berg Guðmundsson sem báðir hafa átt það til að leysa af í sókninni í landsleikjum. Er Björn vongóður um að byrja inni á gegn Kósóvó? 

„Ég veit það ekki. Um það er erfitt að segja. Allir eru að standa sig vel og þeir sem koma inn í hópinn í stað þeirra sem eru meiddir eru mjög góðir fótboltamenn. Þetta er því erfið staða sem Heimir er í enda vilja allir spila og það á einnig við um mig. Það væri snilld að fá að taka þátt í leiknum,“ sagði Björn Bergmann í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert