Falldraugur kveðinn í kútinn?

Emma Higgins, markvörður Norður-Írlands, fagnar sæti í efstu deild með …
Emma Higgins, markvörður Norður-Írlands, fagnar sæti í efstu deild með Grindavík síðasta haust.

Ef sagan kennir okkur eitthvað þá eru yfirgnæfandi líkur á því að að minnsta kosti annar nýliðanna í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu, Haukar eða Grindavík, kveðji deildina í haust. Ekki er þó fullvíst að fallbarátta verði hlutskipti beggja þessara liða. Fylkir og KR sluppu við fall með dramatískum hætti í lokaumferðinni í fyrra og hafa farið ólíkar leiðir til að forðast sömu vandræði í ár.

Keppni í Pepsi-deild kvenna hefst á fimmtudaginn en leiknar verða sjö umferðir áður en maí er allur. Leika þarf þétt vegna Evrópumótsins í Hollandi í júlí. Morgunblaðið spáir í spilin varðandi deildina næstu daga og skoðar í dag liðin tvö sem komu upp úr 1. deild í stað ÍA og Selfoss, og liðin sem enduðu í 7. og 8. sæti Pepsi-deildar í fyrra.

Sjö erlendar landsliðskonur í Grindavík

Stökkið úr næstefstu í efstu deild er stórt og Grindvíkingar virðast vel meðvitaðir um það. Þeir hafa bætt við sig öflugum, erlendum leikmönnum og í hópnum nú má finna sjö erlendar landsliðskonur. Nýr þjálfari liðsins, Róbert Jóhann Haraldsson, hefur lítinn tíma fengið með allan hópinn og þarf að slípa liðið hratt saman.

Mesta athygli vekur að Grindavík fékk til sín tvær brasilískar landsliðskonur; miðjumanninn Thaisu sem var byrjunarliðsmaður á HM í Kanada 2015, og kantmanninn/bakvörðinn Rilany. Þær hafa áður leikið í Svíþjóð og fóru með Tyresö í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu 2014. Þar að auki hefur Grindavík fengið portúgalska landsliðsframherjann Carolinu Mendes sem á að baki 54 landsleiki og lék í sænsku úrvalsdeildinni með Djurgården í fyrra.

Grindavík er svo með tvo afar öfluga, erlenda markmenn. Norður-írski landsliðsmarkvörðurinn Emma Higgins fékk aðeins 4 mörk á sig í 18 leikjum í fyrra með Grindavík, en fær nú samkeppni frá Malin Reuterwall sem á að baki 1 landsleik fyrir Svíþjóð. Reuterwall lék í sænsku úrvalsdeildinni í fyrra.

Í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag má sjá ítarlega umfjöllun um lið Grindavíkur, Hauka, KR og Fylkis fyrir Pepsi-deild kvenna sem hefst á fimmtudag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert