Líkir framgöngu KA við mansal

Umræðan um framtíð Þórs/KA var hávær í vetur.
Umræðan um framtíð Þórs/KA var hávær í vetur. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

„Ég ætla að taka peningana þína og láta þig svo vinna fyrir þeim áður en þú færð þá til baka.“ Svona hefst opið bréf Haraldar Ingólfssonar sem beint er að stuðningsfólki Þórs/KA í knattspyrnu, en Haraldur hefur unnið í kringum liðið í mörg ár.

Bréfið birtist á norðlenska miðlinum kaffid.is, þar sem Haraldur fer hörðum orðum um stjórn KA. Tilefnið er deiluefni Þórs og KA um ráðstöfun á fjármagni frá KSÍ, sem er til komið vegna árangurs Íslands á EM í Frakklandi. KA hefur gefið það út að félagið ætli að nota fjármagnið til uppbyggingar á svæði sínu og segir það vera í samráði við KSÍ.

„Ég get ekki orða bundist lengur vegna þess að mér finnst að á þessu fólki hafi verið brotið, mjög gróflega. […] Þessi framganga hjá ráðandi öflum í knattspyrnudeild K.A. ber ekki vott um umhyggju fyrir knattspyrnu kvenna. Þarna búa einhverjar aðrar hvatir að baki,“ skrifar Haraldur meðal annars.

Haraldur Ingólfsson.
Haraldur Ingólfsson.

Fjármunir viljandi og ítrekað í rangan vasa

Hann heldur því fram í greininni að KA hafi jafnframt haldið eftir fjárframlögum í mörg ár sem ætlað hafi verið 2. flokki kvenna, sem er undir hatti Þórs/KA.

„Þetta er eins og að vera á atvinnuleysisbótum og vinna svart með, eða ef maður ætti tvö börn en tæki þegjandi við barnabótum fyrir þrjú. Ég get ekki með nokkru móti skilgreint það nema á einn hátt þegar fjármunir renna viljandi og ítrekað í rangan vasa,“ skrifar Haraldur.

Haraldur minnist á að KA hafi boðið Þór/KA verkefni sem gæfu vel af sér, til að mynda að annast veitingasölu á Akureyrarvelli og þrif eftir hið árlega NA-mót.

„En misskilningurinn liggur í því að það er ekki það sama að, a) útvega mér verkefni sem ég þarf að vinna að baki brotnu til að fá greitt fyrir það og b) að greiða mér inn á minn reikning það fjárframlag sem mér ber samkvæmt ákvörðun og úthlutun frá KSÍ. Ég get ekki að því gert að „mansal“ kemur upp í hugann,“ skrifar Haraldur, en greinina í heild sinni má lesa HÉR.

Sjá fyrri frétt­ir mbl.is:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert