Úr fótboltanum í golfið

Jón Vilhelm Ákason.
Jón Vilhelm Ákason. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég hef hugsað mér að vera í fríi frá fótboltanum og ætli ég taki ekki bara golfið föstum tökum í sumar,“ sagði Skagamaðurinn Jón Vilhelm Ákason við mbl.is í dag.

„Samningur minn við ÍA rann út um áramótin og mér var ekki boðinn nýr samningur. Skagamenn vildu ekki hafa mig lengur. Í fyrstu var ég fúll með þá niðurstöðu en það er þægilegt núna,“ sagði Jón Vilhelm.

„Ég hef tekið eina og eina æfingu með Kára hér uppi á Skaga í vetur en bara svona til leika mér. Það voru möguleikar að spila í Inkasso-deildinni en ég nenni ekki að keyra á milli Akraness og Reykjavíkur. Ég veit ekki hvort ég spili með Kára í sumar. Stefnan er bara að vera duglegur í golfinu,“ sagði Jón Vilhelm.

Jón Vilhelm, sem er 31 árs gamall, kom við sögu í 14 leikjum með ÍA í Pepsi-deildinni á síðasta tímabili og skoraði í þeim 3 mörk. Hann hefur leikið allan sinn feril með ÍA fyrir utan tvö tímabil sem hann lék með Valsmönnum frá 2010-11. Jón hefur spilað samtals 174 leiki í efstu deild og hefur í þeim skorað 27 mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert