Nístir og sker djúpt í hjartað

Elísa og Margrét Lára Viðarsdætur hafa verið samherjar í íslenska …
Elísa og Margrét Lára Viðarsdætur hafa verið samherjar í íslenska landsliðinu síðustu ár, hjá Kristianstad í Svíþjóð og hjá Val síðan í fyrra. mbl.is/Eggert

„Þetta nístir og sker djúpt inn í hjartað,“ segir Margrét Lára Viðarsdóttir, landsliðsfyrirliði og fyrirliði Vals, sem þvert á það sem hún hafði vonast eftir leikur ekki með Elísu systur sinni í Valsliðinu í sumar né á Evrópumótinu í Hollandi.

Elísa sleit krossband í hné á fyrstu mínútu vináttulandsleiks Íslands og Hollands þann 11. apríl. Margrét var að venju fyrirliði Íslands í leiknum. Henni var skipt af velli korteri fyrir leikslok og sjónvarpsmyndavélar sýndu hana með andlitið í greipum sér, því þó að nokkrir dagar liðu þar til að eðli meiðsla Elísu komu í ljós grunaði Margréti strax hvað væri á seyði.

„Ég sá það bara strax þegar hún lá þarna að eitthvað alvarlegt hafði gerst. Ég get alveg viðurkennt það að þetta var erfiðasti fótboltaleikur sem ég hef spilað, eða þurft að fara í gegnum,“ sagði Margrét, þegar mbl.is ræddi við hana í aðdraganda Pepsideildarinnar sem hefst í dag.

Fjölskylduböndin ná yfir allt annað

„Hausinn á manni er náttúrulega svo skrýtið fyrirbæri og alls konar hugsanir skjóta upp kollinum. Fjölskylduböndin ná yfir allt annað, öll úrslit leikja og annað verður svo léttvægt í svona samhengi. Elísa er sterkur karakter og ótrúlegur íþróttamaður, og ég veit að hún kemur til baka sterk sem aldrei fyrr. Hún á eftir að vinna sig inn í þetta allt saman aftur. En við erum ekkert að skafa af því að tímasetningin er ömurleg. Fyrst og fremst er maður svekktur og sár fyrir hennar hönd,“ sagði Margrét.

Val er spáð Íslandsmeistaratitlinum í sumar eftir að hafa hafnað í 3. sæti í fyrra. Liðið hefur hins vegar misst Elísu, Dóru Maríu Lárusdóttur og Mist Edvardsdóttur fyrir tímabilið, því þær hafa allar slitið krossband í hné.

Dóra María Lárusdóttir og Margrét Lára Viðarsdóttir eru tvær þeirra …
Dóra María Lárusdóttir og Margrét Lára Viðarsdóttir eru tvær þeirra sem leikið hafa yfir 100 landsleiki fyrir Ísland. mbl.is/Ómar

„Þessu fylgir bara mikil sorg og þetta er hræðilegt fyrir þessar þrjár. Þetta er fyrst og fremst ömurlegt fyrir leikmennina, en þær eru líka hluti af stórum og sterkum hóp hjá okkur og landsliðinu og er gríðarlega sárt saknað. Þú fyllir ekkert skörð svona leikmanna, að mínu mati. Hvernig ætlar þú að fylla skarð leikmanns með yfir 100 landsleiki [innsk.: Dóru Maríu], bæði sem karakters og leikmanns? En það er alltaf hægt að fá leikmenn til að styrkja liðið og við erum hvergi bangnar. Við höfum trú á því sem við höfum verið að gera í vetur og höfum trú á að við getum barist um titilinn, þó að við höfum misst mikið,“ sagði Margrét.

Tel 5-6 lið geta gert alvarlegt tilkall til titilsins

Stjarnan varð Íslandsmeistari í fyrra eftir baráttu við Breiðablik fram í lokaumferðina. Valur vann Breiðablik í lokaumferðinni og endaði með jafnmörg stig og Blikar. Margrét býst við ekki síður spennandi titilbaráttu í sumar:

Margrét Lára Viðarsdóttir með verðlaunagripinn eftir að Valur varð deildabikarmeistari …
Margrét Lára Viðarsdóttir með verðlaunagripinn eftir að Valur varð deildabikarmeistari í vor. mbl.is/Eggert

„Vonandi rætist bara spáin. Ég held að þetta verði mjög jafnt. Það eru einhver 5-6 lið í deildinni sem ég tel að geti gert alvarlegt tilkall til titilsins. Það er bara gaman. Maður vill ekki að þetta sé einstefna eða barátta tveggja liða, heldur að þetta sé mikil barátta allt til enda. Við erum mjög spenntar og hlökkum til að byrja,“ sagði Margrét, en Valur sækir Þór/KA heim til Akureyrar í fyrsta leik Pepsideildarinnar kl. 17.45 í dag.

Alltaf sagt að við værum á tveggja ára vegferð

Úlfur Blandon tók við sem þjálfari Vals í haust og Margrét segir hann góðan kandídat í að byggja ofan á árangur síðasta árs, á fyrsta tímabili Margrétar eftir komuna heim úr atvinnumennsku:

„Úlfur hefur komið inn með ferska vinda og fyrir mér er hann frábær þjálfari. Hann er ótrúlega jákvæður og hefur trú á sínum konum, er mikill peppari og góð rödd í klefanum en líka vel skipulagður. Hann hefur allan pakkann. En það má ekki gleyma því að það sem var gert í fyrra var líka mjög gott. Við höfum alltaf sagt að við séum á tveggja ára vegferð. Við fengum nánast nýtt lið í fyrra og þurftum að byggja upp rótina aftur. Við gerðum það vel í fyrra, þó að við hefðum auðvitað alveg viljað vinna mótið, og mér fannst frammistaðan góð. Við vorum sérstaklega góð í „stóru leikjunum“, gegn Stjörnunni og Breiðablik, og náðum góðum úrslitum þar. Við komumst yfir ákveðinn hjalla sem Valur hafði ekki náð árin þar á undan. Óli [Ólafur Tryggvi Brynjólfsson] og Jón [Aðalsteinn Kristjánsson, nú þjálfari Fylkis] gerðu þannig frábæra hluti í fyrra líka og vonandi fer Úlfur enn hærra með okkur. Þetta lítur vel út.“

Margrét Lára varð næstmarkahæst í Pepsideildinni í fyrra með 14 …
Margrét Lára varð næstmarkahæst í Pepsideildinni í fyrra með 14 mörk. mbl.is/Ófeigur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert