Vil hjálpa liðinu eins mikið og ég get

Megan Dunnigan er komin til FH frá ÍA.
Megan Dunnigan er komin til FH frá ÍA.

„Þetta var erfiður leikur, en mér fannst við spila vel og við létum þær hafa fyrir hlutunum,“ sagði Megan Dunnigan, leikmaður FH, í samtali við mbl.is eftir 1:0-tap fyrir Breiðablik í fyrstu umferð Pepsi-deildar kvenna á Kópavogsvelli í kvöld.

„Við börðumst vel, héldum þeim niðri í fyrri hálfleik og vorum óheppnar á fyrstu mínútu seinni hálfleiks. Við fengum samt mörg færi og höfum margt til þess að byggja á eftir þetta. Við þurfum bara að halda áfram enda langt tímabil fram undan,“ sagði Dunnigan.

Dunnigan kom frá ÍA í vetur, en hjá Skaganum var hún atkvæðamikil fyrir framan markið. Í kvöld lék hún hins vegar í miðverði og stóð vaktina vel.

„Ég spilaði miðvörð í háskóla. Við höfum verið mjög óheppnar með meiðsli, en ég vil hjálpa liðinu eins mikið og ég get og ef það þýðir að spila miðvörð þá geri ég það. Ég elska að sækja, en þegar ég þarf að verjast þá geri ég það líka,“ sagði Dunnigan.

Henni líst vel á sumarið og segir að FH geti farið með bjartsýni að leiðarljósi inn í tímabilið.

„Við ætlum að reyna að taka stig af toppliðunum og vinna liðin sem við eigum að vinna. Auðvitað stefna allir á að vinna deildina og við ætlum að gera okkar besta í sumar,“ sagði Megan Dunnigan við mbl.is í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert