Gott að byrja á sigri

Sigríður Lára Garðarsdóttir í leiknum í kvöld.
Sigríður Lára Garðarsdóttir í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

ÍBV vann fyrsta leik sinn í Pepsi-deild kvenna með einu marki gegn engu í kvöld þegar liðið mætti KR. Sigríður Lára Garðarsdóttir spilaði að vanda mjög vel á miðju Eyjakvenna en hún gaf sér tíma til þess að spjalla við mbl.is eftir leik. 

„Þetta var mjög fínt miðað við hvernig, undirbúningurinn var fyrir leikinn. Það var smá töf og við létum það ekki bitna á okkur,“ sagði Sísí en heldur hún að seinkunin og ferðalagið hafi truflað KR-ingana? 

„Ég veit það ekki, þær voru alveg grimmar og þetta var jafn leikur, það var erfitt að brjóta þær niður. Mér fannst við spila mjög vel, uppspilið okkar gekk þvílíkt vel og við vörðumst sem heild.“ 

KR sótti nánast ekkert í leiknum en lék góðan varnarleik. ÍBV átti erfitt með að skora fyrsta markið en þegar það kom þá stjórnaði liðið leiknum betur. 

„Já mér fannst við ná þessu í seinni hálfleik en það var mjög erfitt í fyrri hálfleik, en við náðum að brjóta þær aðeins niður í seinni hálfleik.“ 

ÍBV spilaði í öðru leikkerfi en undanfarin ár og voru með þrjá varnarmenn og sókndjarfa vængbakverði, hjálpaði það ÍBV eitthvað? 

„Mér finnst þetta mjög gott kerfi, við fáum bakverðina meira upp í sóknirnar og við þurfum að byggja ofan á þetta.“ 

ÍBV byrjaði tímabilið í fyrra illa þar sem liðið tapaði fyrstu þremur heimaleikjunum 1:0, það hefur því verið mikilvægt að byrja á sigri í kvöld. 

„Já algjörlega, það er gott að byrja á sigri, við þurfum bara að halda áfram og erum með okkar markmið og við þurfum að byggja ofan á þetta.“ 

Urðu Eyjakonur eitthvað stressaðar undir lokin því forystan var einungis eitt mark? 

„Á síðustu tíu mínútunum fóru þær að reyna langa bolta en mér fannst við verjast vel.“ 

Það er mikið af nýjum leikmönnum í liði ÍBV, er ekki erfitt að skipta um hálft lið á milli tímabila? 

„Jú það er það, en mér finnst þær koma mjög vel inn í þetta og er þetta því virkilega góð byrjun á sumrinu,“ sagði Sigríður Lára eftir sigur í snjónum í Vestmannaeyjum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert