Ætlum að gera betur og ná í Evrópusæti

Þórður Ingason í marki Fjölnis.
Þórður Ingason í marki Fjölnis. mbl.is/Eva Björk

„Þetta er loksins að byrja og maður er mjög spenntur,“ sagði Þórður Ingason, markvörður Fjölnis, í samtali við mbl.is en Fjölnismenn heimsækja ÍBV í fyrstu umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í dag. Leikurinn hefst á Hásteinsvelli klukkan 17.

„Stemningin er bara góð í Grafarvoginum. Við erum spenntir að byrja og prófa okkur almennilega. Það hefur ekki gengið vel á undirbúningstímabilinu og það verður bara gaman að sjá hvar við stöndum,“ sagði Þórður og er alveg meðvitaður um að alvaran hafi ekki verið byrjuð í leikjunum í vor.

„Það er ekki alveg hægt að líkja þessu saman, þótt það gefi einhverja mynd. En þegar mótið byrjar þá verðum við klárir,“ sagði Þórður.

Fjölnir hafnaði í 4. sæti í deildinni í fyrra en missti af Evrópusæti. Þetta var besti árangurinn í sögu félagsins. „Það gekk mjög vel í fyrra fyrir utan síðustu leikina sem var mjög svekkjandi. En við erum hættir að hugsa um það núna. Við ætlum okkur að gera betur en í fyrra og það þýðir Evrópusæti,“ sagði Þórður einbeittur.

Þórður Ingason, markvörður Fjölnis.
Þórður Ingason, markvörður Fjölnis. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Ungu strákarnir eiga að sanna sig í sumar

Eftir sögulega árangurinn í fyrra var hins vegar mikill flótti frá félaginu og alls fimm fastamenn sem hurfu á braut. Viðar Ari Jónsson hélt í víking til Noregs og fyrirliðinn Guðmundur Karl Guðmundsson fór til FH. Það gerði líka spilandi aðstoðarþjálfarinn Ólafur Páll Snorrason. Tobias Salquist sneri heim til Danmerkur og annar Dani, Martin Lund, fór til Breiðabliks eftir að hafa verið markahæsti leikmaður Fjölnis í fyrra.

Fjölnir hefur engu að síður ekki farið mikinn á leikmannamarkaðnum og mun treysta mikið á unga leikmenn liðsins.

„Þessir strákar eru mjög öflugir, eins og Ægir [Jarl Jónasson], Torfi [Gunnarsson] og Birnir [Snær Ingason] og við viljum að þeir geri betur en í fyrra og stigi upp. Þeir eiga að sýna að þeir séu tilbúnir til þess að vera í liðinu. Hansi [Hans Viktor Guðmundsson] kom inn í þetta í fyrra, frekar óvænt vegna meiðsla, og stóð sig frábærlega og hann mun bara vera betri í ár,“ sagði Þórður.

Hann segir að þjálfarinn Ágúst Gylfason muni ná því besta út úr mönnum og það komi liðinu langt.

„Hann er heiðarlegur maður og segir hlutina hreint út. Maður leggur sig alltaf 100% fram fyrir hann, því hann gerir það og ætlast til þess að aðrir geri það líka,“ sagði Þórður Ingason, markvörður Fjölnis, við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert