Óskar getur komist í fimmta sætið

Óskar Örn Hauksson á fullri ferð í leik með KR …
Óskar Örn Hauksson á fullri ferð í leik með KR í vor. mbl.is/Árni Sæberg

KR-ingurinn Óskar Örn Hauksson á góða möguleika á að verða á þessu ári fimmti leikjahæsti leikmaðurinn í sögu efstu deildar í fótboltanum hér á landi.

Óskar er núna í 9.-10. sæti á listanum yfir þá leikjahæstu í deildinni með 243 leiki en Grétar Sigfinnur Sigurðarson sem var í áttunda sætinu með einum leik meira mun leika með Þrótti í 1. deildinni í ár.

Óskar þarf að spila þrettán leiki til að fara uppfyrir þrjá næstu menn á listanum en hann vantar hinsvegar 24 leiki til að ná Keflvíkingnum Sigurði Björgvinssyni sem er sá fjórði leikjahæsti með 267 leiki.

Markvörðurinn Kristján Finnbogason, sem er þriðji leikjahæstur, lagði hanskana endanlega á hilluna síðasta haust en hann hefur verið varamarkvörður FH síðustu árin.

Eyjamaðurinn Birkir Kristinsson, fyrrverandi landsliðsmarkvörður sem lengst af lék með Fram en einnig með ÍA, ÍBV og KA, er langleikjahæstur í sögu deildarinnar og er sá eini sem hefur spilað yfir 300 leiki. Hann hætti endanlega árið 2006 eftir að hafa spilað 42 ára gamall með Eyjamönnum.

Keflvíkingurinn Gunnar Oddsson, sem einnig lék með KR og Leiftri, kemur næstur á eftir honum.

Birkir og Gunnar eru líka þeir sem hafa leikið lengst í deildinni án þess að missa úr leik. Birkir spilaði 198 leiki í röð og Gunnar 186 leiki.

Fimmtán leikjahæstu menn í sögu deildarinnar eru eftirtaldir:

Birkir Kristinsson 321

Gunnar Oddsson 294

Kristján Finnbogason 268

Sigurður Björgvinsson 267

Guðmundur Steinarsson 255

Heimir Guðjónsson 254

Andri Marteinsson 246

Grétar S. Sigurðarson 244

Óskar Örn Hauksson 243

Júlíus Tryggvason 243

Tryggvi Guðmundsson 241

Atli Viðar Björnsson 240

Sigurbjörn Hreiðarsson 240

Gunnleifur Gunnleifsson 239

Þormóður Egilsson 239

Þeir Atli Viðar og Gunnleifur eiga líka góða möguleika á að verða á bilinu fimm til sjö á leikjalistanum að þessu tímabili loknu. Ef þeir Óskar, Atli og Gunnleifur spila bróðurpartinn af leikjum sinna liða munu þeir raða sér í sæti fimm, sex og sjö á listanum.

Gunnleifur efstur í öllum deildum

Gunnleifur, sem verður 42 ára í júlí, er langleikjahæstur núverandi leikmanna efstu deildar þegar leikir í öllum deildum Íslandsmótsins eru lagðir saman.

Þar er hann sá þriðji leikjahæsti frá upphafi með 374 leiki en fyrir ofan hann eru Gunnar Ingi Valgeirsson með 405 leiki og Mark Duffield með 400 leiki.

Af þeim sem leika í deildinni í ár er Atli Viðar næstur með 311 deildaleiki samtals í öllum deildum og síðan Srdjan Rajkovic, markvörður KA, með 301 leik og þeir Óskar Örn og Halldór Hermann Jónsson úr KA með 292 leiki hvor.

Þessi grein er úr Fót­bolt­inn 2017, sér­blaði um Pepsi-deild karla sem fylgdi Morg­un­blaðinu á föstudaginn en þar er fjallað ít­ar­lega um deild­ina sem hefst í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert