„Dion er lasið fljótur“

Einar Karl Ingvarsson lék vel í kvöld.
Einar Karl Ingvarsson lék vel í kvöld. mbl.is/Ófeigur

Einar Karl Ingvarsson átti mjög góðan leik á miðjunni hjá Val þegar liðið sigraði KR, 2:1, í 4. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í kvöld. Með sigrinum komust Hlíðarendapiltar upp að hlið Stjörnunnar í efsta sæti deildarinnar en bæði lið eru með 10 stig.

„2:1-sigur á KR er alltaf góður en þeir eru með mjög sterkt lið. Það er frábært að vinna þennan leik,“ sagði Einar Karl við mbl.is eftir leikinn.

Fyrri hálfleikur var frábær skemmtun en Valsarar voru 2:0 yfir að honum loknum. KR-ingar fengu þó líka sín færi í hálfleiknum en Óskar Örn Hauksson klúðraði til að mynda vítaspyrnu um miðjan hálfleikinn.

„Við ætluðum að pressa þá og spila boltanum en þetta spilaðist aðeins öðruvísi en við vildum,“ sagði Einar en fyrra mark Vals, sem Guðjón Pétur Lýðsson skoraði á 14. mínútu, kom úr fyrstu sókn liðsins. „Það er gott að nýta færin þegar við fáum þau.“

Þegar líða tók á fyrri hálfleik stungu heimamenn boltanum margoft inn fyrir vörn KR, enda eru Kristinn Ingi Halldórsson og Dion Acoff gríðarlega fljótir. „Við vitum að við erum með eldfljóta menn og reynum að nota þá. Dion er lasið fljótur og við verðum að reyna að nýta okkur þessi vopn sem við höfum,“ sagði kátur Einar Karl eftir leikinn á Hlíðarenda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert