Fyrsti sigur Fjölnis á FH

Ægir Jarl Jónasson úr Fjölni og Davíð Þór Viðarsson, FH, …
Ægir Jarl Jónasson úr Fjölni og Davíð Þór Viðarsson, FH, eigast við leiknum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjölnir hefur ekki riðið feitum hesti gegn FH en breyting varð á því í Kaplakrika í kvöld þegar Grafarvogspiltar fögnuðu sætum 2:1 sigri gegn Íslandsmeisturunum og innbyrtu þar með sinn fyrsta sigur á FH í efstu deild.

Varamaðurinn Þórir Guðjónsson tryggði Fjölnismönnum sigurinn þegar hann skallaði boltann laglega í netið.

Fyrri hálfleikurinn var nokkuð líflegur þar sem bæði lið áttu góð færi. Gunnar Nielsen varði glæsilega frá Marcusi Solberg snemma leiks og kollegi hans í Fjölnismarkinu, Þórður Ingason, átti ekki síðri markvörslu þegar hann varði skot Kristjáns Flóka upp í þverslána og niður. Þó svo að FH-ingarnir hafa verið með frumkvæðið úti á vellinum áttu Grafarvogspiltar fínar skyndisóknir og upp úr einni slíkri kom Ivica Dzolan Fjölnismönnum yfir með laglegu skallamarki eftir sendingu frá Hans Viktori Guðmundssyni.

FH-ingum tókst að jafna metin þegar varamaðurinn Emil Pálsson skoraði af stuttu færi á 66. mínútu og héldu þá margir að FH-ingar myndu láta kné fylgja kviði en gestirnir voru ekkert á þeim buxunum að fara án stiga úr Krikanum. Þórir skoraði sigurmarkið skömmu eftir að hafa komið inn á og þrátt fyrir harða hríð að marki Fjölnismanna á lokamínútunum tókst FH-ingum ekki að jafna metin.

FH 1:2 Fjölnir opna loka
90. mín. Uppbótartíminn eru 4 mínútur.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert