Mjög barnalegur varnarleikur

Þórður Þorsteinn Þórðarson með boltann í leiknum gegn KR í …
Þórður Þorsteinn Þórðarson með boltann í leiknum gegn KR í 3. umferð. mbl.is/Eggert

„Við erum bara að spila mjög barnalegan varnarleik,“ sagði Skagamaðurinn Þórður Þorsteinn Þórðarson, ómyrkur í máli, eftir 3:2-tap liðsins gegn Grindavík á heimavelli í kvöld, í Pepsi-deildinni í knattspyrnu.

Skagamenn eru enn án stiga og hafa fengið á sig 13 mörk í fyrstu fjórum umferðunum:

„Við gefum mörkin, leik eftir leik, og það er greinilega sama hvort það er gegn toppliðum eða liðum eins og Grindavík, sem við höldum að við munum keppast við. Ef við ætlum að tapa þeim leikjum líka þá þýðir það bara eitt. En það eru 18 leikir eftir og það þýðir ekkert að grenja núna,“ sagði Þórður, sem átti sjálfur flottan leik og skapaði oft hættu.

„Mér fannst fyrri hálfleikur mikið betri. Við fengum mikið fleiri færi en þeir og vorum bara aular að komast ekki yfir. En svona er bara fótboltinn. Þá voru 45 mínútur eftir en þeir skoruðu eftir eina og hálfa í seinni hálfleik, sem er bara til skammar. Sóknarleikurinn er ekkert vandamál. Það er bara varnarleikur alls liðsins. Við þurfum að byrja að verjast frá fremsta manni til þess aftasta, og getum ekkert sagt að þetta eigi bara við um þessa fjóra aftast og markmann. Við verjumst sem lið og sækjum sem lið,“ sagði Þórður.

Skagamenn fengu vítaspyrnu á lokamínútu fyrri hálfleiks, þegar brotið var á Garðari Gunnlaugssyni, en spyrna Garðars var varin:

„Það er alltaf þetta ef og hefði. Svona er bara fótboltinn. Stundum klikkar maður á vítum og þannig var það hjá Garðari í dag, en hann skoraði líka fínt mark í seinni hálfleik. Þetta er bara þannig að ef við ætlum að fá á okkur 3-4 mörk í hverjum leik þá setjum við eitthvert met í að fá á okkur mörk. Við þurfum að stoppa í þessi göt. Það er erfitt að skora 5 mörk í leik,“ sagði Þórður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert