Það á enginn möguleika gegn honum

Gunnar Þorsteinsson er fyrirliði Grindavíkur.
Gunnar Þorsteinsson er fyrirliði Grindavíkur. mbl.is/Eggert

„Það sjá allir hversu miklum gæðum hann býr yfir,“ sagði Gunnar Þorsteinsson, fyrirliði Grindavíkur, um samherja sinn, Andra Rúnar Bjarnason, sem skoraði þrennu gegn ÍA í kvöld í 3:2-sigri Grindvíkinga sem eru með sjö stig eftir fjórar umferðir í Pepsi-deildinni.

Andri átti frábæran leik en auk þess að skora þrennuna kom hann sér í tvö mjög góð færi til viðbótar og var nálægt því að skora fleiri mörk:

„Ég er búinn að bíða eftir að hann eigi svona leik. Hann hefur verið í mjög strangri gæslu, enda verið svolítið mikið einn þarna frammi. Við breyttum aðeins til í kvöld og settum [Sam] Hewson aðeins framar, sem virtist koma vel út því þeir Alexander [Veigar Þórarinsson] fundu Andra mikið fyrir aftan vörnina,“ sagði Gunnar, hæstánægður með frammistöðu Bolvíkingsins:

„Andri kom til okkar að láni í fyrra og við vorum gífurlega heppnir að fá hann aftur. Hann tók sig þvílíkt á í vetur, er búinn að æfa eins og skepna og hugsa þvílíkt vel um sig. Hann er aðeins léttari og þar með sneggri, búinn að vera duglegur að lyfta og því kraftmeiri. Það á enginn möguleika, eins og sást í fyrsta markinu þar sem hann steig gæjann bara út. Allir sem sjá hann vita hvað hann er ógeðslega góður tæknilega, og frábær í að klára færin. Hann er þvílíkur happafengur; stór, sterkur og fljótur. Menn ráða ekkert við hann,“ sagði Gunnar.

Getum strítt öllum með svona gæði í sókninni

Eins og fyrr segir hafa nýliðar Grindavíkur nú þegar náð í sjö stig í deildinni, og eru til að mynda sjö stigum á undan ÍA sem situr á botninum.

„Miðað við spárnar fyrir mót þá kemur þetta örugglega öllum á óvart nema okkur. Við vitum alveg hvað við getum og með þessi gæði í sókninni þá getum við strítt öllum. Við erum skipulagðir og börðumst eins og ljón í dag, og þá erum við til alls líklegir,“ sagði Gunnar. Skipulagið virðist einmitt þurfa að vera ansi gott til að leikmenn geti unnið eftir 3-4-3 leikkerfinu sem Grindavík notar:

„Það er of flókið til að ræða í svona stuttu viðtali, en við erum rosalega vel æfðir. Við erum búnir að vera að vinna með þetta kerfi síðan í nóvember í hverri viku. Óli [Stefán Flóventsson] er rosalega skipulagður þjálfari og fer djúpt í hlutina, svo allir þekkja sitt hlutverk,“ sagði Gunnar brosandi, léttur í bragði þrátt fyrir skurð við annað augað eftir að hafa fengið olnbogaskot í leiknum.

Andri Rúnar Bjarnason á eftir boltanum í leik gegn Víkingi …
Andri Rúnar Bjarnason á eftir boltanum í leik gegn Víkingi Ólafsvík á dögunum. Framherjinn var frábær í kvöld. Ljósmynd/Víkurfréttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert