Verðum að snúa þessari þróun við

Atli Guðnason, leikmaður FH-inga, var daufur í dálkinn þegar mbl.is spjallaði við hann eftir tapleikinn gegn Fjölni í Pepsi-deildinni í kvöld.

„Þetta eru gríðarleg vonbrigði og við leikmennirnir verðum að taka okkur saman í andlitinu. Ég hélt að við myndum taka þetta þegar við jöfnuðum en svo fengum við á okkur enn eitt markið úr föstu leikatriði. Það er einhver einbeitingarskortur í gangi hjá okkur í þessum föstu leikatriðum og við verðum að gjöra svo vel að laga þessa hluti strax,“ sagði Atli við mbl.is en hann lagði upp mark FH-inganna í leiknum.

„Við verðum eitthvað að taka til í okkar herbúðum og snúa þessari þróun við. Núna eru komnir þrír leikir í deildinni án sigurs og það er ekki ásættanlegt hjá þessu liði. Hafi þessi leikur verið leikur sem við verðum að vinna er sá næsti það heldur betur þegar við förum í Vesturbæinn og mætum KR,“ sagði Atli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert