Besta formið í mörg ár

Andri Rúnar Bjarnason í leik með Grindavík í vor.
Andri Rúnar Bjarnason í leik með Grindavík í vor. Ljósmynd/Víkurfréttir

Þrenna gegn Skagamönnum, þrjú mikilvæg stig til Grindavíkur eftir 3:2 útisigur og þrjú M í Morgunblaðinu. Betra gerist það ekki og Andri Rúnar Bjarnason,sóknarmaður Grindvíkinga, var að vonum í góðu skapi í gærmorgun þegar undirritaður spjallaði við hann um afrek mánudagskvöldsins og fortíðina og framtíðina í fótboltanum.

Andri Rúnar er 26 ára Bolvíkingur sem lék til 2014 með BÍ/Bolungarvík, þreytti frumraun sína í efstu deild með Víkingi R. 2015 en var lánaður til Grindavíkur vorið 2016 og samdi síðan um að spila þar áfram eftir að hafa tekið þátt í að koma liðinu í efstu deild.

Andri sagði að það væri ólýsanleg tilfinning að hafa náð að skora þrennu í deildinni. „Heldur betur. Ég setti mér það markmið fyrir tímabilið að skora þrennu. Nú er því náð og þá stefni ég bara á þá næstu!

Það er draumabyrjun fyrir nýliða að vera með sjö stig eftir fyrstu fjóra leikina og mun meira en flestir spáðu okkur. En við höfðum mikla trú á okkur sjálfir fyrir mótið, við höfum mætt og spilað okkar fótbolta, og það er ekki verra að hafa fengið sex stig nú þegar á útivöllum.

Mér líður rosalega vel hjá Grindavík og er í góðum höndum hjá Óla og Janko (Óla Stefáni Flóventssyni þjálfara og Milan Stefáni Jankovic aðstoðarþjálfara). Þeir hafa hjálpað mér geysilega mikið við að bæta minn leik, þeir kunna helling um fótbolta og það er mjög þægilegt að finna traustið sem þeir gefa mér og trúna sem þeir hafa á mér.

Síðan ákvað ég síðasta haust að taka sjálfan mig rækilega í gegn, borða betur, fara fyrr að sofa og hugsa almennt betur um mig, og mér finnst það vera að skila sér. Ég hef ekki verið í svona góðu formi í mörg ár. Þegar ég spilaði með BÍ/Bolungarvík var ég í góðu standi fram til 2012 og fannst ég á þeim tíma vera tilbúinn til að taka skrefið upp í úrvalsdeildina. En þegar ég kom til Víkings 2015 var ég ekki í nægilega góðu líkamlegu standi. Í vor hef ég í fyrsta skipti í mörg ár verið alveg tilbúinn í slaginn og markmiðið er að halda áfram að bæta ofan á það sem komið er,“ sagði Andri.

Sjá allt viðtalið við Andra Rúnar í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag og þar er jafnframt að finna úrvalslið 4. umferðar og stöðuna í M-gjöfinni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert