Feginn að við erum komnir á ról

Brynjar Hlöðversson og Carlos Carrasco í leiknum á Leiknisvelli í …
Brynjar Hlöðversson og Carlos Carrasco í leiknum á Leiknisvelli í dag. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Brynjar Hlöðversson, fyrirliði og miðjumaður Leiknis úr Reykjavík, var afar ánægður eftir að hafa innbyrt fyrsta sigurinn á tímabilinu í 1. deild karla í knattspyrnu, 2:0, gegn Leikni frá Fáskrúðsfirði í Efra-Breiðholti í dag.

„Það er gífurlegur léttir að hafa náð að landa fyrsta sigrinum, og um leið rosalega mikilvægt,“ sagði Brynjar við mbl.is eftir leikinn en hann var öflugur á miðjunni og krækti m.a. í vítaspyrnu í leiknum.

„Við erum vel að þessum sigri komnir, hann var mjög sanngjarn að mínu mati og við hefðum getað unnið með meiri mun. Vissulega hefðum við líka getað fengið á okkur mark úr vítinu í lokin og þeir áttu sláarskot, en við fengum sjálfir nóg af færum til að skora fleiri mörk. Það var líka rosalega mikilvægt að halda hreinu. Það höfum við ekki áður gert í vor, nema í bikarleik gegn Stokkseyri, en það er allt of langt síðan.“

Brynjar kvaðst vera bjartsýnn á gott gengi Breiðholtsliðsins í sumar eftir að fyrsti sigurinn er kominn í hús.

„Ég er fyrst og fremst feginn að við séum komnir á ról, komnir af stað, og núna eigum við klárlega að geta byggt á þessu og klifið töfluna. Við eigum pottþétt að vera í toppbaráttunni í þessari deild, að berjast um efstu sætin. Það er markmiðið og ég sé okkur þar.

Deildin er mjög jöfn, en ég hef trú á að við getum unnið alla. Við erum með mikið sjálfstraust, og þegar við spilum eins og í dag eru okkur allir vegir færir. En annars er mér alveg sama hvernig við spilum þegar við vinnum leiki – þetta var þó glæsileg spilamennska hjá okkur – og sigur líka, þannig að það eru tveir plúsar!“

Brynjar fékk vítaspyrnuna þegar José Luis Vidal, framherji Leiknis F., braut á honum eftir hornspyrnu snemma í seinni hálfleik.

„Ég ýtti í hann til að losa mig við dekkninguna og það fór eitthvað í taugarnar á honum. Hann keyrði í bakið á mér, ég held að hann hafi misst skapið aðeins. Hann hefði getað fengið rautt spjald, þetta var svo mikil heift hjá honum. En það hafði ekkert að segja fyrst við klúðruðum vítinu!“ sagði Brynjar Hlöðversson.

Brynjar Hlöðversson er fyrirliði Leiknis R.
Brynjar Hlöðversson er fyrirliði Leiknis R. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert