Jafnteflakóngar samir við sig

Keflvíkingar fagna marki gegn Leikni R. í fyrstu umferðinni í …
Keflvíkingar fagna marki gegn Leikni R. í fyrstu umferðinni í vor. mbl.is/Golli

Keflavík og Selfoss gerðu 2:2 jafntefli í 1. deild karla í knattspyrnu, Inkasso-deildinni, í kvöld en leikið var á Nettóvellinum í Keflavík.

Keflvíkingar halda því sínu striki með jafntefli í þessari deild. Þeir gerðu jafntefli í 11 leikjum af 22 í fyrra og nú eru komin þrjú í fyrstu fjórum umferðunum.

Selfyssingar gerðu tíu jafntefli í fyrra, komu næstir á eftir Keflvíkingum, svo það þarf ekki að koma á óvart þótt viðureign þessara liða hafi endað á þennan veg.

Eftir tíðindalítinn fyrri hálfleik fóru mörkin að detta inn og það voru gestirnir sem skoruðu fyrsta markið þegar Ingi Rafn Ingibergsson skoraði á 50. mínútu.

Tveimur mínútum síðar jafnaði Juraj Grizelj fyrir Keflavík. James Mack kom svo Selfossi aftur yfir á 63. mínútu og dugði það mark þeim Selfossmönnum í þrjár mínútur því þá jafnaði Hólmar Örn Rúnarsson fyrir Keflavík.  Þar við sat og óhætt að segja sanngjörn úrslit. 

Selfoss tyllti sér þar með í toppsætið um stundarsakir með 7 stig eins og Fylkir en Keflavík er með 6 stig eins og HK og Þróttur R. 

Keflavík 2:2 Selfoss opna loka
90. mín. Leik lokið 2:2 jafntefli varð niðurstaða kvöldsins.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert