Ákvað að fara alla leið og skora

Ivan Bubalo sækir að marki ÍR í leiknum í kvöld.
Ivan Bubalo sækir að marki ÍR í leiknum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Brynjar Kristmundsson var hetja Fram sem hafði betur gegn ÍR í Inkasso-deildinni í knattspyrnu í dag, 2:1. Brynjar kom inn á sem varamaður í uppbótartíma og nokkrum sekúndum seinna var hann búinn að skora. 

„Þetta var rúm mínúta sem ég var inni á. Ég var beðinn um að koma með stoðsendingu en ég ákvað að fara með þetta alla leið og skora sigurmark. Þetta var langur bolti fram og eitthvað klafs. Dómarinn ætlaði að dæma víti en ég náði að koma boltanum inn og sem betur fer náði ég að klára þetta.“

„Við erum á heimavelli og hér viljum við vinna alla leiki, ekki bara gegn ÍR heldur alla heimaleiki. Við byrjuðum leikinn mjög vel, við ógnuðum mikið og áttum skot í slá en svo áttu þeir góðan kafla og komust yfir. Við settum svo mikla pressu á þá í lokin sem skilaði sér.“

Hvað finnst Brynjari um tímabilið hjá Fram hingað til? 

„Við höfum verið að byrja leiki illa og missa þá niður, en á meðan við erum ekki að tapa leikjunum þá erum við í fínum málum, þó að ég væri til í að fá fleiri þrjú stig. Við höfum sýnt það í sumar að við erum með karaktera í liðinu. Við höfum verið að koma til baka eftir að hafa lent undir.“

Brynjar var að spila sinn fyrsta leik á tímabilinu í dag. 

„Maður vill alltaf byrja en ég er búinn að bíða þolinmóður eftir mínu tækifæri og vonandi fara tækifærin að verða fleiri,“ sagði hann að lokum. 

Ásmundur Arnarsson, þjálfari Fram, og Brynjar Kristmundsson.
Ásmundur Arnarsson, þjálfari Fram, og Brynjar Kristmundsson. Ljósmynd/fram.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert