Milos stýrði Blikum til sigurs í fyrsta leik

Milos Milojevic stýrði Breiðabliki til sigurs í sínum fyrsta leik sem þjálfari liðsins þegar Víkingur frá Ólafsvík kom í heimsókn í 5. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í kvöld. Blikar hrósuðu 2:1-sigri og unnu sinn annan leik í röð í deildinni eftir þrjú töp þar á undan.

Milos var fljótur að láta til sín taka eins og kom fram á mbl.is í dag, en hann setti varnarmanninn Michee Efete á bekkinn þar sem hann kom of seint í leikinn. Blikar komust svo yfir eftir tæpan stundarfjórðung, en Martin Lund átti þá glæsilega stungusendingu á Arnþór Ara Atlason sem gat varla gert annað en skorað dauðafrír á markteig.

Aðeins fimm mínútum síðar bættu Blikar við marki þegar Hrvoje Tokic skoraði af stuttu færi gegn sínum gömlu félögum eftir sendingu frá Gísla Eyjólfssyni. Staðan 2:0 eftir 18 mínútur.

Víkingar náðu að minnka muninn á 34. mínútu en þar var að verki Kwame Quee sem skallaði boltann í netið af stuttu færi eftir sendingu Nacio Heras í kjölfar hornspyrnu. Guðmundur Friðriksson bjargaði svo á línu í uppbótartíma fyrri hálfleiks fyrir Blika eftir skot Kenan Turudija. Staðan 2:1 fyrir Blika í hálfleik.

Bæði lið fengu sín færi eftir hlé þar sem Víkingar gerðu það sem gátu til þess að jafna. Lokakaflinn var sérstaklega spennandi þar sem Blikar reyndu að halda fengnum hlut og það tókst, lokatölur 2:1 fyrir Breiðablik.

Blikar eru með sex stig eftir tvo sigra í röð en Ólafsvíkingar eru með 3 stig á botninum.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is, en nánar er fjallað um alla leiki kvöldsins í íþróttablaði Morgunblaðsins á morgun. Viðtöl koma svo hingað á vefinn síðar í kvöld.

Breiðablik 2:1 Víkingur Ó. opna loka
90. mín. Víkingar reyna að pressa eins og þeir geta enda er tíminn að hlaupa frá þeim. Blikar eru hins vegar yfirvegaðir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert