KR og FH sættust á jafnan hlut

Kennie Chopart reynir skot að marki. Gunnar Nielsen markmaður er …
Kennie Chopart reynir skot að marki. Gunnar Nielsen markmaður er tilbúinn á meðan Jonathan Hendrickx reynir að komast fyrir boltann í kvöld. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

KR og FH skildu jöfn, 2:2, þegar liðin mættust í fimmtu umferð úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, Pepsi-deildarinnar, á Alvogen-vellinum í kvöld. Það voru Kristján Flóki Finnbogason og Atli Guðnason sem skoruðu mörk FH, en Óskar Örn Hauksson og Arnór Sveinn Aðalsteinsson skoruðu mörk KR.

Kristján Flóki Finnbogason kom FH yfir skömmu fyrir lok fyrri hálfleiks þegar hann skallaði boltann í netið af stuttu færi. Óskar Örn Hauksson jafnaði síðan metin í upphafi síðari hálfleiks þegar hann tók boltann á lofti inni í vítateig FH og hamraði boltanum í netið.

Atli Guðnason kom svo FH yfir á nýjan leik á 67. mínútu leiksins þegar hann skoraði með hnitmiðuðu skoti úr þröngu færi sem hafnaði í fjærhorninu á marki KR.

KR-ingar jöfnuðu metin á nýjan leik þegar um það bil tíu mínútur voru eftir af leiknum. Þar var að verki Arnór Sveinn Aðalsteinsson sem skoraði sitt fyrsta deildarmark fyrir KR. Skot Arnórs Sveins úr vítateig FH hafði viðkomu í Kassim Doumbia áður en hann fór í nærhornið á marki FH.

KR hefur nú sjö stig eftir fimm leiki og situr í fimmta sæti deildarinnar, en FH hefur hins vegar sex stig og er í áttunda sæti deildarinnar. KR er sex stigum á eftir Stjörnunni sem trónir á toppi deildarinnar með 13 stig og Íslandsmeistarar, FH, eru sjö stigum frá toppsætinu.

FH mætir einmitt Stjörnunni í næstu umferð og getur þar saxað á forskot Stjörnunnar á toppi deildarinnar. KR mætir hins vegar Grindavík sem hefur farið vel af stað í deildinni í sumar og situr í þriðja sæti deildarinnar með tíu stig.  

KR 2:2 FH opna loka
90. mín. Leik lokið Leik lokið með 2:2-jafntefli.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert