Mótafyrirkomulagið er að bíta okkur

Kjartan Stefánsson (til hægri).
Kjartan Stefánsson (til hægri). Ljósmynd/Haukar

Kjartan Stefánsson, þjálfari Hauka, var nokkuð áhyggjufullur eftir 4:1 tap gegn Val í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu í kvöld. Hann segir þetta vera versta leik liðsins á tímabilinu til þessa en Haukar eru á botninum með aðeins eitt stig.

„Við byrjuðum þennan leik mjög illa og fyrsta markið var ódýrt. Valur var að spila frábærlega í dag á meðan við vorum mjög slappar. Þetta jafnaðist aðeins út í seinni hálfleik en þetta var okkar versti leikur á mótinu hingað til og það er áhyggjuefni.“

„Sóknarleikurinn var í lagi, við erum ágætar í uppspilinu en varnarleikurinn var ekki góður. Við vorum ekki í stöðum og við féllum allt of aftarlega en við töluðum um það fyrir leik að við ætluðum að mæta þeim.“

Haukar voru aðeins með fimm varamenn í dag en leyfilegt er að vera með sjö.

„Mótafyrirkomulagið er að bíta okkur, við erum að spila rosalega marga leiki á sömu leikmönnum á meðan við erum að glíma við meiðsli. Við eigum bikarleik á föstudaginn og þetta er þungt,“ sagði Kjartan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert