„Rútuferðin heim verður alveg geggjuð“

Leikmenn Þórs/KA og þjálfarar fagna sigri. Aðalþjálfarinn, Halldór Jón Sigurðsson, …
Leikmenn Þórs/KA og þjálfarar fagna sigri. Aðalþjálfarinn, Halldór Jón Sigurðsson, Donni, forsöngvari inni í hringnum. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Stelpurnar komu frábærlega til baka eins og þeirra er von og vísa,“ sagði Halldór Jón Sigurðsson, Donni, þjálfari Þórs/KA við mbl.is eftir sjöunda sigur liðsins í röð í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu í kvöld.

Þór/KA lagði þá Stjörnuna í Garðabænum, 3:1, og er þetta fyrsti útisigur liðsins á Stjörnunni frá árinu 2012. Það ár varð lið Þórs/KA Íslandsmeistari.

„Eigum við ekki að segja að það verði bara svipað í ár. Þetta eru algjörir fagmenn þessar stelpur og vita alveg hvað þær eiga að gera, sem er algjörlega lykilatriðið í þessu öllu saman. Hvort sem það er Stjarnan eða annað lið þá skiptir það ekki öllu, það þurfa allar að vera með 100% kveikt á perunum og þá getum við unnið alla leiki,“ sagði Donni, en markmiðið er ljóst fyrir norðan og skilaboðin skýr í kvöld.

„Ég held að þau hafi verið það frá fyrsta leik og jafnvel fyrir mót, við sögðum það fyrir mót að við ætlum að verða Íslandsmeistarar. Hingað til höfum við unnið alla leiki og það er ekkert hik á okkur, við ætlum bara að halda áfram,“ sagði Donni.

Stjarnan komst yfir strax á þriðju mínútu leiksins en það var ekkert til þess að stressa sig yfir.

„Mér fannst það aðallega bara leiðinlegt, því við höfðum ekki fengið neitt mark á okkur í opnum leik í sumar. Mér fannst það frekar pirrandi ef ég á að vera hreinskilinn, en ég vissi að við kæmum til baka enda lítið búið af leiknum og við höfum yfirleitt skorað fleiri en eitt mark. Mér fannst við vera með tögl og hagldir svo ég hafði ekki áhyggjur, þó að vissulega hafi þetta verið högg,“ sagði Donni.

Aðspurður sagði hann að það væri skemmtileg rútuferð norður í vændum enda sannarlega ástæða til þess að gleðjast í herbúðum Þórs/KA.

„Rútuferðin heim verður alveg geggjuð, það verður sett einhver ægileg „chick-flick“ mynd í gang og jafnvel teiknimynd ef sá gállinn er á. Það verður líka bara jafnvel pizzuveisla á leiðinni,“ sagði Donni léttur við mbl.is í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert