Það hafa allir spilað í bleytu

Sóley Guðmundsdóttir er hér við stöngina í leik gegn Stjörnunni …
Sóley Guðmundsdóttir er hér við stöngina í leik gegn Stjörnunni fyrr í sumar. Eyjakonur hafa fengið 10 af 12 stigum mögulegum á heimavelli hingað til. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

ÍBV sigraði Breiðablik með tveimur mörkum gegn engu í 7. umferð Pepsi-deildar kvenna. ÍBV spilaði sinn besta bolta á tímabilinu og var sigurinn aldrei í hættu eftir að Katie Krautner skoraði fyrsta mark leiksins á 10. mínútu.

Sóley Guðmundsdóttir, fyrirliði liðsins, spjallaði við mbl.is eftir leik en hún var virkilega ánægð með leik liðsins.

„Við erum mjög sáttar með þetta, við gerðum allt sem við lögðum upp með í dag og það gekk upp.“

Vill Sóley meina að þetta sé munurinn á liðunum?

„Já, ég myndi segja það, við spiluðum á okkar styrkleikum og á þeirra veikleika. Það fór eins og það fór.“

Þjálfari Blika, Ólafur Pétursson, vildi meina að ÍBV hafi ráðið betur við aðstæður í dag, er Sóley sammála því?

„Við þekkjum aðstæður og æfðum hér í gær en allir hafa spilað í bleytu og veit ég ekki hvort við séum eitthvað betri en önnur lið í því.“

ÍBV væri átta stigum á eftir Blikum ef liðið hefði tapað í dag og var sigurinn því nauðsynlegur fyrir ÍBV til að koma sér aftur inn í baráttuna.

„Það er mjög mikilvægt að halda okkur inni í efri partinum, það er mjög sterkt.“

Þór/KA vann 3:1 sigur á móti Stjörnunni í dag á útivelli, sér Sóley eitthvert lið ná þeim?

„Mér finnst það mjög ólíklegt, þær eru solid lið og klára sína leiki, ég held að það sé ekkert að fara að stoppa þær.“

ÍBV hélt hreinu á móti öflugri sókn Blika í dag og hlýtur það að vera virkilega ánægjulegt fyrir varnarmenn liðsins.

„Það eru auðvitað þrjár landsliðsstelpur þarna í sókninni og mjög sterkt að stoppa þær.“

Leikkerfi ÍBV hentar gríðarlega vel á móti Blikum og því lítið sem liðið þurfti að lagfæra þrátt fyrir tap gegn Þór/KA í síðustu umferð.

„Við breyttum engu frá síðasta leik enda var hann mjög góður, þrátt fyrir tap, eins fáránlegt og það er. Við höldum áfram að spila okkar leikkerfi sem er búið að ganga vel í sumar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert