Finnst ég einstaklega heppin að vera hérna

Anisa Guajardo í leiknum við KR á dögunum.
Anisa Guajardo í leiknum við KR á dögunum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég elska þetta,“ sagði Anisa Guajardo, önnur af tveimur mexíkóskum landsliðskonum í liði Vals í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu, spurð hvernig sér líki dvölin á Íslandi. Anisa átti stórgóðan leik og skoraði tvö mörk í 5:0-sigri Vals á KR í 9. umferð deildarinnar og er sá leikmaður sem Morgunblaðið beinir sjónum sínum að eftir umferðina.

Anisa kom til Vals í vetur eftir að hafa síðast orðið ástralskur meistari með Melbourne City og segir mikinn mun vera á því að spila hér á landi eða í Ástralíu.

„Í Ástralíu virtust leikmenn vera mun yngri, svo að fótboltinn var svolítið öðruvísi. Þar treystu liðin á hraða og mikil hlaup þar sem allt átti að gerast hratt. Hérna er líka mikill hraði en maður sér líka að leikmenn hugsa meira hvað þeir eru að gera. Hér er líka meiri áhersla á að byggja upp sóknir og halda boltanum. Það hentar leikstíl mínum mun betur,“ sagði Anisa og hvort sem litið er til fótboltans eða landsins sjálfs virðist hún vera í skýjunum.

„Ísland er gjörólíkt öllum öðrum stöðum þar sem ég hef komið. Landið er ótrúlega fallegt og sama hvert maður horfir er náttúran upp á sitt besta. Það er ótrúlegt. Hvað fótboltann varðar eru gæðin og hraðinn mikil. Mér finnst ég einstaklega heppin að vera hérna.“

Nánar er rætt við Anisu í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert