Langþráður sigur hjá HK

Stefán Þór Pálsson úr ÍR í baráttu við HK-ingana Reyni …
Stefán Þór Pálsson úr ÍR í baráttu við HK-ingana Reyni Má Sveinsson og Ásgeir Marteinsson mbl.is/Árni Sæberg

HK fékk í kvöld sín fyrstu stig í fimm leikjum í 1. deild karla í knattspyrnu, Inkasso-deildinni, þegar Kópavogsliðið vann ÍR 2:0 í Kórnum.

HK fór þar með uppfyrir ÍR og í 8. sætið með 9 stig en ÍR seig niður í 10. sætið með 7 stig.

HK náði forystunni á 16. mínútu þegar Ásgeir Marteinsson hirti boltann af varnarmanni rétt utan vítateigs og skoraði með laglegu skoti í vinstra hornið, 1:0.

Fyrri hálfleikurinn var jafn en HK-ingar sköpuðu sér betri marktækifæri og fóru með nokkuð verðskuldaða forystu í leikhléið.

HK nýtti ekki tvö góð færi til að auka forskotið í byrjun síðari hálfleiks þegar Ingiberg Ólafur Jónsson skaut framhjá af markteig og Steinar Örn Gunnarsson varði vel skalla Reynis Más Sveinssonar eftir aukaspyrnu.

ÍR sóti meira í seinni hálfleiknum en skapaði sér engin teljandi færi gegn þéttum varnarleik HK fyrr en á 79. mínútu þegar Sergine Modou Fall skaut hátt yfir markið úr opnu færi á vítapunkti. Rétt á eftir komst hann aftur í færi en skaut í varnarmann og horn. Sergine kom inná sem varamaður skömmu áður og kom með ógnun í sóknarleik ÍR sem var bitlaus fram að því.

En á 87. mínútu innsiglaði HK sigurinn. Uppúr aukaspyrnu fékk Arian Ari Morina boltann rétt utan vítateigs og renndi honum laglega í gegnum miðja vörnina á Bjarna Gunnarsson sem skoraði af öryggi, einn gegn markverði, 2:0.

Í uppbótartíma leiksins fékk ÍR-ingurinn Styrmir Erlendsson rauða spjaldið.

HK 2:0 ÍR opna loka
90. mín. Styrmir Erlendsson (ÍR) fær rautt spjald Fór í Andra markvörð HK sem hafði gómað boltann.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert