Vorum dæmdir niður fyrir mót

Aleksandar Kostic með boltann í leiknum í kvöld.
Aleksandar Kostic með boltann í leiknum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Þeir skora úr föstu leikatriði þar sem við erum klaufar að ná ekki að hreinsa. Það er það sem skilur á milli," sagði Aleksandar Kostic, fyrirliði Gróttu eftir 1:0 tap gegn Fram á Laugardalsvelli í kvöld. Leikurinn var liður í 9. umferð Inkasso-deildarinnar, 1. deild karla í knattspyrnu. 

„Bæði lið voru að reyna að byggja upp sóknir og þetta var fínn fótbolti á köflum. Bæði lið spiluðu þéttan varnarleik. Þetta var stál í stál í fyrri hálfleik og þeir skora úr föstu leikatriði og við reynum að sækja jöfnunarmarkið, við getum byggt ofan á þetta."

Þrátt fyrir að Grótta hafi aðeins unnið einn leik í allt sumar er Aleksandar brattur. 

„Við vorum dæmdir niður fyrir mót en við njótum þess að vera hérna. Það er engin uppgjöf hjá okkur. Við höfum mikla trú á þessum hóp, það er mikið af uppöldum strákum og við erum ekki tjaldandi til einnar nætur, þetta er áfram gakk," sagði Aleksandar Kostic að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert