Fylkir styrkti stöðu sína á toppnum

Oddur Ingi Guðmundsson úr Fylki með boltann í leiknum í …
Oddur Ingi Guðmundsson úr Fylki með boltann í leiknum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Topplið Fylkis sigraði Selfoss, 2:0, á Floridana-vellinum í Árbænum í 8. umferð Inkasso-deildarinnar, 1. deildar karla í knattspyrnu, í kvöld. 

Bæði lið höfðu unnið góðan 2:0 sigur í síðustu umferð er Fylkir vann Fram í Árbænum en Selfoss lagði Leikni F. á Jáverkvellinum á Selfossi.

Leikurinn fór rólega af stað en heimamenn voru þó ívið betri frá fyrstu mínútum og tök þeirra á leiknum urðu meiri og meiri. Á 28. mínútu kom svo fyrsta markið þegar vinstri bakvörður Fylkis, Ásgeir Örn Arnþórsson, átti laglegan sprett upp vænginn áður en hann sendi boltann fyrir markið þar sem Albert Brynjar Ingason lúrði á fjærstönginni og skoraði af stuttu færi.

Albert Brynjar var aftur á ferðinni á 40. mínútu þegar misheppnaður skalli Hákons Inga lenti fyrir Alberti á fjærstönginni og aftur skoraði hann af stuttu færi. Fleira marktækt gerðist ekki í fyrri hálfleik en yfirburðir Fylkismann voru algjörir.

Lítið gerðist í síðari hálfleiknum. Fylkismenn tóku fáar áhættur í sterkri stöðu og Selfyssingum skorti gæðin í sókninni í kvöld til að ná inn marki og fleiri urðu mörkin því ekki.

Með sigrinum tókst Fylki að styrka stöðu sína á toppnum en liðið er nú með 19 stig. Selfyssingum mistókst hinsvegar að færa sig upp töfluna og er liðið áfram í fjórða sæti með 13 stig.

Fylkir 2:0 Selfoss opna loka
90. mín. Uppbótartíminn er þrjár mínutur. Fylkismenn eru að styrka stöðu sína á toppnum hér í kvöld.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert