Þrenn mistök og þrjú mörk

Bryndís Lára Hrafnkelsdóttir við öllu búin í marki Þórs/KA í …
Bryndís Lára Hrafnkelsdóttir við öllu búin í marki Þórs/KA í leiknum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Við lögðum upp með að vinna fyrst og fremst en þarna mættust tvö skemmtileg lið svo þetta var örugglega verið góð skemmtun en við töpuðum á að gera fleiri mistök, þau voru þrjú og mörk Stjörnunnar þrjú, þannig hlutir skilja oft svona sterk lið að,“  sagði Bryndís Lára Hrafnkelsdóttir sem fór á kostum milli stanganna hjá Þór/KA gegn Stjörnunni í kvöld en það dugði ekki til og norðankonur duttu út úr bikarnum í 8-liða úrslitum.

Þetta var fyrsta tap Þórs/KA-kvenna í sumar eftir 9 leiki í deildinni og einn í bikarkeppninni og Bryndís Lára var yfirveguð.  „Þetta er fyrsti leikurinn sem við töpum svo það verður spennandi að sjá hvernig við komum í næsta leiki eða leiki.  Við förum heim núna og verðum svolítið pirraðar en svo er það  bara búið fyrir næsta leik.  Sá reynir á okkur og er mjög mikilvægur í deildinni á móti Breiðabliki á þriðjudaginn.“

Sultuslök og nú er bara næsti leikur

„Mér fannst Stjörnuliðið betra en við í dag og áttu skilið að sigra,“  sagði þjálfari Þór/KA Halldór Jón Sigurðsson eftir leikinn.

„Meira er varla um það að segja en við vorum í góðri stöðu svo það var svekkjandi að missa leikinn niður svona snemma í síðari hálfleik og það var ákveðið högg.   Það breytir því ekki að Stjarnan var betra liðið, skapaði sér fullt af færum og  best í okkar lið var markmaðurinn, sem segir sína sögu.“

„Við ætluðum í hálfleik að halda áfram okkar leik og vorum í góðri stöðu, svo það var engin ástæða til að pakka í vörn. Við ætluðum að ná í sigur en þegar við fáum þetta mark í andlitið þurftum við að skoða stöðuna uppá nýtt en það gekk bara ekki í dag.“

„Ég hef engar áhyggjur af því hvort mitt lið verði einbeitt í næsta leik, fólk er sultuslakt og þetta var önnur keppni og hún er nú búin en þá er að halda áfram í Íslandsmótinu.  Nú er bara að ná einbeitingu  og hugsa um næsta leik.“

Bryndís Lára Hrafnkelsdóttir, markvörður Þórs/KA fór á kostum í kvöld …
Bryndís Lára Hrafnkelsdóttir, markvörður Þórs/KA fór á kostum í kvöld en það dugði ekki til. mbl.is/Skapti
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert